Íslenski boltinn

Jónas Guðni er hættur

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Jónas Guðni í leik með KR árið 2015.
Jónas Guðni í leik með KR árið 2015. Vísir/Andri Marinó
Jónas Guðni Sævarsson hefur ákveðið að leggja skóna á hilluna og mun hann því ekki spila með Keflavík í Pepsi-deild karla á næsta tímabili. Þetta staðfesti hann í samtali við Morgunblaðið í gær.

Keflavík tryggði sér í gær sæti í Pepsi-deild karla með 3-0 sigri á Gróttu. Fylkir vann Þrótt, 3-1, á sama tíma sem þýðir að Keflavík er með sjö stiga forystu á liðið í þriðja sæti þegar tvær umferðir eru eftir af tímabilinu.

Jónas Guðni er 33 ára en meiðsli hafa hrjáð hann í sumar. Hann ákvað af þeim sökum að stíga til hliðar nú en hann hefur aðeins komið við sögu í sjö leikjum í sumar en þar af voru fjórir í fyrstu fimm umferðunum.

Hann lék með Keflavík og KR hér á landi á ferli sínum sem hófst árið 2001. Hann lék alls 256 leiki í deild og bikar og skoraði í þeim þrettán mörk.

Hann var einnig á mála hjá Halmstad í Svíþjóð frá 2009 til 2012 og á að baki sjö leiki og tvö mörk með A-landsliði Íslands.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×