Fjórir tapleikir í röð hjá Palace sem hefur enn ekki skorað mark

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Það gengur gjörsamlega ekkert hjá Crystal Palace þessa dagana en liðið tapaði 0-1 gegn Burnley á Turf Moor í ensku úrvalsdeildinni í dag. Er þetta fjórði ósigur Crystal Palace í röð sem hefur ekki enn skorað í deildinni á þessu tímabili.

Það var mikil pressa á Frank De Boer fyrir leikinn en það hefur verið rætt um framtíð hjá félaginu í enskum fjölmiðlum eftir slaka byrjun á tímabilinu. Jóhann Berg Guðmundsson byrjaði leikinn hjá Burnley og lék allar 90. mínúturnar í sigrinum.

Chris Woods skoraði eina mark leiksins í fyrsta heimaleik sínum fyrir Burnley eftir félagsskipti frá Leeds en í aðdraganda marksins pressaði Jóhann Berg vel á sinn mann sem losaði boltann beint fyrir fætur Woods og skoraði hann örugglega framhjá markmanninum.

Það reyndist eina mark leiksins og dugði Burnley til sigurs en með sigrinum er Burnley komið upp í sjöunda sæti deildarinnar en Crystal Palace situr sem fastast við botn deildarinnar.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira