Erlent

Varaforseti Bandaríkjanna þvertekur fyrir forsetaframboð

Kjartan Kjartansson skrifar
Mike Pence hyggur alls ekki á forsetaframboð ef marka má afdráttarlausa yfirlýsingu hans.
Mike Pence hyggur alls ekki á forsetaframboð ef marka má afdráttarlausa yfirlýsingu hans. Vísir/EPA
Mike Pence, varaforseti Bandaríkjanna, hefur brugðist reiður við fréttum af hugsanlegu forsetaframboði hans árið 2020. Segir hann fréttirnar móðgandi fyrir sig og alla fjölskyldu sína og starfslið.

Bandarískir fjölmiðlar greindu frá því í síðustu viku að ýmislegt í dagskrá og fjáröflun Pence væru dæmigerð fyrir þá sem væru að búa í haginn fyrir forsetaframboð.

Þannig sagði New York Times frá því á sunnudag að Pence hefði sett á laggirnar fjáröflunarnefnd og varaforsetinn hefði safnað milljón dollara á viðburði í Washington-borg í síðustu viku.

Af fréttunum mátti þannig skilja að Pence og hópur repúblikana væru að gera sig tilbúna fyrir að Donald Trump forseti bjóði sig annað hvort ekki fram aftur eftir þrjú ár eða að hann muni ekki endast kjörtímabilið.

Blaðið hafði þó eftir heimildamönnum sínum að Pence færi aðeins fram ef Trump yrði ekki í framboði.

Segir fullyrðingar NYT algerlega rangar

Stutt forsetatíð Trump hefur einkennst af glundroða en rannsókn sérstaks rannsakanda dómsmálaráðuneytisins og þingnefnda á meintu samráði forsetaframboðs hans við Rússa hefur legið þungt á forsetanum.

Trump hefur ekkert gefið í skyn að hann muni ekki bjóða sig fram aftur og hefur í raun þegar hafið undirbúning fyrir annað forsetaframboð.

Í yfirlýsingu frá Hvíta húsinu sagði Pence að frétt New York Times væri skammarleg og að fullyrðingarnar í henni væru algerlega rangar.

Pence sagði jafnframt að hann og starfslið hans beindu nú öllum kröftum sínum að því að vinna að stefnumálum Trump og að tryggja endurkjör hans árið 2020.

Talsmaður New York Times segir hins vegar í yfirlýsingu til Washington Post að blaðið standi við frétt sína og hyggist láta hana tala eigin máli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×