Erlent

Starfsmaður Google rekinn fyrir að stuðla að staðalmyndum kynjanna

Kjartan Kjartansson skrifar
Staðalmyndir kynjanna eru ekki liðnar hjá Google.
Staðalmyndir kynjanna eru ekki liðnar hjá Google. Vísir/AFP
Tæknirisinn Google hefur rekið starfsmann sem skrifaði umdeilt minnisblað þar sem meðal annars var fullyrt að líffræðilegar orsakir valdi því að færri konur starfi hjá fyrirtækinu.

Karlkyns forritari hjá Google sendi innanhússminnisblað þar sem hann færði rök fyrir því að færri konur væri í forsvari hjá tæknifyrirtækjum vegna líffræðilegs munar á þeim og körlum, að því er segir í frétt breska ríkisútvarpsins BBC.

„Við þurfum að hætta að ganga út frá því að kynjamunur stafi af karlrembu,“ skrifaði hann á innra spjallborði Google. Pistill hans var síðar birtur á tæknivefsíðunni Gizmodo.

Ekki í lagi að segja hluta starfsmanna síður hæfan líffræðilega

Sundar Pichai, forstjóri Google, segir að minnisblaðið hafi brotið gegn siðareglum fyrirtækisins. Forritarinn hafi verið látinn taka poka sinn. Í tölvupósti til starfsmanna sagði Pichai að minnisblaðið hefði farið yfir strikið vegna þess að það „ýtti undir skaðlegar staðalmyndir kynjanna á vinnustaðnum“.

Þrátt fyrir það lagði Pichai áherslu á málfrelsi starfsmanna sinna og sagði margt af því sem kom fram í minnisblaðinu eitthvað sem sem vert væri að ræða hvort sem að mikill meirihluti starfsmanna Google sé sammála því eða ekki.

„Að gefa í skyn að hluti samstarfsmanna okkar hafi eiginleika sem gerir þá síður líffræðilega hæfa til að sinna sinni vinnu er móðgandi og ekki í lagi,“ skrifaði forstjórinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×