Erlent

Misvísandi skilaboð frá Hvíta húsinu

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Samband Pútíns og Trumps hefur verið gagnrýnt.
Samband Pútíns og Trumps hefur verið gagnrýnt. Nordicphotos/AFP

Misvísandi skilaboð hafa borist frá forsetaembætti Bandaríkjanna um ný lög sem fulltrúadeild Bandaríkjaþings samþykkti um nýjar viðskiptaþvinganir gegn Rússum. Lögin kveða einnig á um að minnka möguleika forsetans, Donalds Trump, á því að aflétta núverandi þvingunum. Því er forsetinn andvígur.

BBC greindi í gær frá því að fjölmiðlafulltrúi forsetans, Sarah Huckabee Sanders, hefði sagt að forsetinn styddi nýju löggjöfina. Nýr samskiptastjóri Hvíta hússins, Antonio Scaramucci, sagði við CNN að forsetinn hefði ekki ákveðið sig.

„Ég er bara búinn að starfa hér í tvo eða þrjá daga. Ég býst við því að hann ákveði sig fljótlega. Hann hefur ekki enn ákveðið hvort hann skrifi undir lögin,“ sagði Scaramucci.

„Ríkisstjórnin styður valdbeitingu gegn Rússum, sérstaklega þegar kemur að því að koma á nýjum viðskiptaþvingunum,“ sagði Sanders.

Forsetinn gæti neitað að skrifa undir lögin. Geri hann það er afar líklegt að andstæðingar hans segi það vegna meintra tengsla forsetaframboðs hans við rússnesk yfirvöld en alríkislögreglan rannsakar nú meint áhrif Rússa á kosningarnar.

Lögin myndu ekki einungis heimila auknar þvinganir gegn Rússum fyrir innlimun þeirra á Krímskaga árið 2014. Einnig væri hægt að beita nýjum þvingunum gegn Írönum og Norður-Kóreumönnum. Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.