Erlent

Óvissa vegna banns Trump við transfólki í hernum

Kjartan Kjartansson skrifar
Banni Trump við að transfólk gegni herþjónustu var mótmælt í New York í gær.
Banni Trump við að transfólk gegni herþjónustu var mótmælt í New York í gær. Vísir/EPA
Hvíta húsið hefur enn ekki greint frá því hvernig það mun útfæra bann Donalds Trump forseta við því að transfólk gegni herþjónustu. Forsetinn tilkynnti um bannið í gær en ekki er vitað hvort að transfólk sem nú þjónar í hernum verði látið hætta.

Réttindasamtök transfólks hafa gagnrýnt ákvörðun Trump harðlega. Í röð tísta í gær sagði forsetinn að herinn mætti ekki við kostnaðinum og trufluninni sem hann telur hljótast af transfólki.

Í kjölfarið hefur transfólk í hernum lýst áhyggjum af því að það verði leyst frá störfum eða bannað að skrá sig aftur til herþjónustu, að því er segir í frétt breska ríkisútvarpsins BBC.

Sarah Huckabee Sanders, blaðafulltrúi Hvíta hússins, segir að ríkisstjórnin muni vinna með varnarmálaráðuneytinu um útfærslu á banninu. Hún gat ekki svarað spurningum um hvort að hermenn sem væru þegar á vígvellinum yrðu sendir heim.

Þá virðist tímasetning ákvörðunarinnar hafa komið hermálayfirvöldum í opna skjöldu. James Mattis, varnarmálaráðherra, heyrði þannig ekki af ákvörðuninni fyrr en eftir að Trump tilkynnti um hana á Twitter.

Herinn eyðir meira fé í stinningarlyf en transfólk

Rökstuðningur forsetans hefur verið dreginn í efa. Þannig benti Washington Post á að herinn greiði fimmfalt meira fyrir stinningarlyfið Viagra en fyrir heilbrigðisþjónustu við transfólk. Alls greiðir herinn 42 milljónir dollara til að viðhalda reisn starfsliðs síns á ári.

Stjórnmálaskýrendur hafa leitt líkum að því að Trump hafi tekið ákvörðunina til þess að fylkja kristnum íhaldsmönnum að baki sér og til að dreifa athyglinni frá rannsókninni á meintu samráði bandamanna hans við Rússa.

Vefsíðan Axios.com hafði til dæmis eftir embættismanni í stjórn Trump í gær að bannið kæmi demókrötum sem berjast fyrir endurkjöri í íhaldssömum ríkjum Bandaríkjanna í þingkosningum á næsta ári í krappa stöðu með því að neyða þá til að lýsa andstöðu við bannið.


Tengdar fréttir

Trump: Transfólk má ekki gegna herþjónustu

Transfólki verður bannað að gegna allri herþjónustu samkvæmt ákvörðun Donalds Trump Bandaríkjaforseta. Hann telur transfólk truflun og byrði á Bandaríkjaher.

Ákvörðun Donalds Trump vekur hræðslu

Formenn Trans-Íslands og Samtakanna '78 segja ákvörðun Donalds Trump Bandaríkjaforseta um að banna transfólki að starfa fyrir her landsins ekki koma á óvart. Ákvörðunin markar brotthvarf frá stefnu Obama, fyrrverandi forseta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×