Erlent

Miklir skógareldar við Adríahafið

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Svona var ástandið í Podstrana nærri borginni Split í gær.
Svona var ástandið í Podstrana nærri borginni Split í gær. Vísir/AFP
Vel hefur tekist að ráða við skógarelda sem ógnað hafa borginni Split, mikilvægri hafnarborg við Adríahaf, undanfarna daga. Frá þessu greindi Andrej Plenkovic, forsætisráðherra Króatíu, í gær. Sagði hann að blessunarlega hefði tekist að rýma tugi húsa nærri Split sem síðar hafi orðið eldunum að bráð.

Að sögn Plenkovic hefur veðrið hjálpað slökkviliði mikið í baráttunni við eldana. Kviknuðu þeir meðal annars vegna sterkra vinda og mikilla þurrka. Nú hefur lygnt og hefur það bæði heft útbreiðslu eldanna sem og gert flugvélum slökkviliðs auðveldara fyrir.

Ríkissjónvarp Svartfjallalands greindi jafnframt frá því í gær að ríkisstjórn landsins hefði beðið Atlantshafsbandalagið um að senda tvær slökkviliðsflugvélar til Lust­ica-skaga þar í landi til að kljást við skógarelda. Segir í fréttinni að Atlantshafsbandalagið kanni nú hvaða ríki geti orðið við bóninni.

Lustica-skagi er allur sagður loga en þar hefur verið einkar þurrt undanfarið og vindar miklir. Rúmlega hundrað hafa þurft að yfirgefa heimili sín á skaganum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×