Erlent

Katar ætlar ekki að leggja árar í bát

Kjartan Kjartansson skrifar
Sheikh Mohammed bin Abdulrahman al-Thani, utanríkisráðherra Katar, er kokhraustur þrátt fyrir mótlætið.
Sheikh Mohammed bin Abdulrahman al-Thani, utanríkisráðherra Katar, er kokhraustur þrátt fyrir mótlætið. Vísir/AFP
Stjórnvöld í Katar segjast ekki ætla að láta undan þrýstingi annarra arabaríkja og gefa eftir fullveldi sitt í utanríkismálum þrátt fyrir að þau hafi einangrað landið með viðskiptaþvingunum. Emírinn í Kúvaít er á meðal þeirra sem reyna nú að miðla málum og ná friðsamlegri lausn á deilunni.

Sádi-Arabía, Sameinuðu arabísku furstadæmin og Egyptaland eru á meðal þeirra arabaríkja sem slitu tengsl við Katar um síðustu helgi. Ríkin saka stjórnvöld í Katar um að styðja hryðjuverkastarfsemi og Írani.

Sheikh Mohammed bin Abdulrahman al-Thani, utanríkisráðherra Katar, segist ekki hafa séð neinar kröfur frá ríkjunum sem hafa slitið á tengslin við landið en að deila verði leyst friðsamlega, samkvæmt frétt Reuters-fréttastofunnar.

„Við erum ekki tilbúin að gefast upp og við verðum aldrei tilbúin til að gefast eftir sjálfstæði utanríkisstefnu okkar,“ sagði ráðherrann.

Reyna að koma í veg fyrir að ástandið versni

Refsiaðgerðirnar hafa valdið nokkurri upplausn í Katar en landamæri þess að Sádí-Arabíu eru þau einu sem liggja að landi. Óttast fólk þar verðhækkanir og vöruskort. Langar raðir hafa myndast við kjörbúðir í landinu.

Utanríkisráðherrann segist þó ekki óttast matvælaskort. „Við getum lifað að eilífu svona. Við eru vel undirbúin,“ segir hann.

Erindreki stjórnvalda í Kúvaít sem reynir að miðla málum segist telja að það eigi eftir að taka tíma að ná sáttum. Nú snúist málaleitanir helst um að koma í veg fyrir að ástandið versni.


Tengdar fréttir

Samstarfsslitin skilja Katar eftir einangrað

Óvissa ríkir á Arabíuskaganum eftir að fjöldi ríkja sleit stjórnmála- og viðskiptasambandi við Katar í gær. Yfirvöld segja vegið að sjálfstæði landsins en halda því fram að aðgerðirnar komi ekki til með að hafa nein áhrif á daglegt líf borgaranna.

Telja rússneska hakkara hafa stuðlað að aðgerðum gegn Katar

Vísbendingar eru um að rússneskir hakkarar hafi plantað gervifrétt á vef ríkisfréttastofu Katar sem átti þátt í að önnur arabaríki einangruðu landið með viðskiptaþvingunum. Bandarísk yfirvöld hafa aðstoðað við rannsókn málsins.

Mjólkin búin í búðinni

Íslendingur sem býr í Katar segir að nokkrar matvörur sem hann kaupir vanalega séu búnar í búðinni. Þar á meðal mjólkin sem kemur frá Sádí-Arabíu en lokað hefur verið fyrir samgöngur milli landanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×