Enski boltinn

Meiddu mennirnir að snúa aftur hjá Manchester United

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Paul Pogba á æfingunni.
Paul Pogba á æfingunni. Vísir/Getty
Manchester United spilar mikilvægan leik á móti Celta Vigo á morgun þegar liðin mætast í fyrri leik sínum í undanúrslitum Evrópudeildarinnar. Nú eru aðeins þrír leikir í Meistaradeildarsæti.

Jose Mourinho, knattspyrnustjóri Manchester United, hefur þurft að glíma við mikil meiðsli hjá sínum leikmönnum að undanförnu en það var ánægjuleg sjón sem blasti við stuðningsmönnum United á æfingu í dag.

Meiddu mennirnir Eric Bailly, Paul Pogba, Chris Smalling og Phil Jones tóku allir þátt í æfingunni en sem dæmi hafa þeir Chris Smalling og Phil Jones misst af níu leikjum, annar tábrotnaði en hinn meiddist á hné.

Paul Pogba, dýrasti knattspyrnumaður heims, hefur misst af síðustu tveimur leikjum vegna vöðvatognunar og Bailly fór meiddur af velli á móti Swansea um helgina.

Luke Shaw var hinsvegar hvergi sjáanlegur enda munu meiðsli hans sennilega halda honum frá fótboltavelli í nokkra mánuði.

Manchester United tryggir sér sæti í Meistaradeildinni með sigri í Evrópudeildinni og það er því mikið undir fyrir enska liðið í þessari keppni. Leikurinn á morgun fer fram á heimavelli Celta Vigo en viku síðar mætast liðin á Old Trafford.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×