Erlent

Fimm meðlimir Boko Haram sagðir látnir lausir í skiptum fyrir Chibok-stúlkurnar

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Alþjóðanefnd Rauða Krossins sendi frá sér þessa mynd af stúlkunum í dag. Þær sjást stíga upp í flugvél, sem mun flytja þær á fund Muhammadu Buhari, forseta Nígeríu.
Alþjóðanefnd Rauða Krossins sendi frá sér þessa mynd af stúlkunum í dag. Þær sjást stíga upp í flugvél, sem mun flytja þær á fund Muhammadu Buhari, forseta Nígeríu. Vísir/AFP
Nígerískur embættismaður hefur staðfest að fimm meðlimir hryðjuverkasamtakanna Boko Haram hafi verið látnir lausir í skiptum fyrir Chibok-stúlkurnar 82, sem sleppt var úr haldi samtakanna í gær. AP-fréttaveitan greinir frá gangi mála.

Stúlkunum var sleppt í gær eftir að hafa verið fangar Boko Haram síðan 2014. Embættismaðurinn sem staðfesti lausn Boko-Haram-liðanna vildi ekki láta nafn síns getið en hann er ekki sagður hafa umboð til að tjá sig um málið við fjölmiðla.

Embætti forseta Nígeríu, Muhammadu Buhari, hefur enn ekki tjáð sig um málið og þá hefur heldur ekkert heyrst í hryðjuverkasamtökunum sjálfum.

Um 20 stúlkum var sleppt í október á síðasta ári. Þá hafa 113 stúlkur af þeim 276 sem rænt var úr heimavistarskóla, þar sem þær stunduðu nám, enn ekki komið í leitirnar. Talið er að einhverjar þeirra séu látnar og að enn aðrar hafi aðhyllst öfgastefnu ræningja sinna og neiti nú að snúa aftur heim.

Stúlkurnar, sem látnar voru lausar í gær, munu hitta fyrir forseta Nígeríu síðar í dag. Þá lenti hópur stúlkna á flugvellinum í Abuja, höfuðborg Nígeríu, í dag og þær keyrðar á brott í bílum á vegum hersins.

Yfirvöld í Nígeríu hafa enn fremur sagst staðráðin í því að bjarga þeim stúlkum sem enn eru í haldi Boko Haram.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×