Erlent

Belgísk móðir varð fyrsta fórnarlamb árásarmannsins í Stokkhólmi

Atli Ísleifsson skrifar
Maïlys Dereymaeker.
Maïlys Dereymaeker. Facebook
Hin belgíska Maïlys Dereymaeker varð fyrsta fórnarlamb árásarmannsins sem ók vörubíl á gangandi vegfarendur á Drottninggatan í Stokkhólmi á föstudag. Hin 31 árs Dereymaeker var í Stokkhólmi þar sem hun hugðist hitta vini sína í borginni.

Alls létu fjórir lífið í árásinni, en 39 ára úsbeskur ríkisborgari er í haldi lögreglu, grunaður um verknaðinn. Ellefu ára sænsk stúlka á leið heim úr skólanum lést einnig í árásinni, ásamt 41 árs Breta, Chris Bevington, föður sem starfaði sem yfirmaður hjá Spotify. Enn á eftir að greina frá fjórða fórnarlambinu, sem er sænskur ríkisborgari.

Sudpresse segir frá því að hin 31 árs Dereymaeker hafi haldið ein til Stokkhólms til að hitta vini, en hún starfaði sem sálfræðingur og vann mikið með hælisleitendum. Hún lætur eftir sig eins árs son.

Hún kom frá Lembeek í Halle, smábæ með um sjö þúsund íbúa suður af Brussel.

Var tónlist hugleikin

Fram hefur komið að Dirk Pieters, borgarstjóri Halle, er góður vinur foreldra Dereymaeker. „Þegar árásin átti sér stað var hún sjálf mætt á staðinn, en vinirnir sem hún hugðist hitta voru enn ekki mættir. Ég þekkti hana ekki persónulega en hafði margoft hitt hana. Ég verð fyrir áfalli í hvert sinn sem slík árás er framin, en það er enn verra þegar ég þekki foreldra hennar og get sett andlit við fórnarlömbin,“ segir Pieters við sænska blaðið Expressen.

Chris Bevington.facebook
Expressen segir frá því að tónlist skipaði stóran sess í lífi Dereymaeker þar sem hún spilaðu á flautu í hljómsveit og eignaðist þannig vini alls staðar að úr heiminum. Á hún einnig að hafa kennt börnum á hljóðfæri.

Var eftirlýstur

Úsbekinn sem grunaður er um verknaðinn hafði sótt um dvalarleyfi í Svíþjóð árið 2014. Síðasta sumar var þeirri beiðni hafnað og í desember í fyrra fékk hann mánaðarlangan frest til að yfirgefa landið. Það gerði hann ekki og var hann í kjölfarið á lista yfirvalda yfir eftirlýsta menn. Hann hafði á samfélagsmiðlum meðal annars deilt áróðursmyndböndum ISIS.

Auk þeirra fjögurra sem létu lífið eru níu enn slasaðir, fjórir þeirra alvarlega.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×