Erlent

Móðir allra sprengja felldi 36 ISIS-liða

Birgir Olgeirsson skrifar
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna.
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna. Vísir/EPA
Þrjátíu og sex liðsmenn ISIS féllu í loftárás Bandaríkjahers á jarðgangasvæði hryðjuverkasamtakanna í austur Afganistan í gær.

Þetta hefur fréttastofa breska ríkisútvarpsins BBC eftir varnarmálaráðuneyti Afganistan en sprengjan sem Bandaríkjaher notaði er kölluð „móðir allra sprengja“. Um er að ræða stærstu sprengju sem Bandaríkjaher hefur notað í hernaði, ef frá eru talin kjarnavopn.

Varnarmálaráðuneyti Afganistan segir enga óbreytta borgara hafa fallið í þessari árás.

Abdullah Abdullah, æðsti embættismaður Afganistan, sem deilir forsetavaldi með Ashraf Ghani, sagði þessa árás Bandaríkjahers hafa verið framin í samvinnu við stjórnvöld í Afganistan og allt hafi verið gert til að koma í veg fyrir óbreyttir borgarar yrðu fyrir skaða.

Varnarmálaráðuneyti Afganistan segir að sprengjunni hafi verið varpað á þorp nærri Momand-dalnum þar sem ISIS-liðar hafa notast við þrjú hundruð metra löng gangakerfi.

Sprengjan, sem er 9,8 tonn að þyngd, er sögð hafa eyðilagt stórt vopnabúr ISIS-liða. 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×