Erlent

Farþegi sem stunginn var af sporðdreka í flugi United Airlines: „Hann stakk eins og vespa“

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Flugfélagið United Airlines hefur ekki átt sjö dagana sæla síðan maður var dreginn með valdi út úr vél félagsins. Sporðdrekinn mun líklega ekki bæta ástandið.
Flugfélagið United Airlines hefur ekki átt sjö dagana sæla síðan maður var dreginn með valdi út úr vél félagsins. Sporðdrekinn mun líklega ekki bæta ástandið. Vísir/AFP
„Ég var búinn að vera í flugvélinni í um klukkutíma og ég var að borða kvöldmat,“ sagði Richard Bell, farþegi United Airlines sem stunginn var af sporðdreka í flugi á fimmtudag, í samtali við BBC. „Og svo datt eitthvað á höfuðið á mér. Sætisfélagi minn, maður frá Mexíkó, sagði: „Þetta er sporðdreki! Þeir eru hættulegir.“

Bell var á heimleið eftir frí með konu sinni, Lindu. Ekki er vitað hvernig sporðdrekinn komst um borð í vélina samkvæmt frétt CNN.

Flugfélagið United Airlines hefur sætt mikilli gagnrýni vegna meðferðar sinnar á farþega sem dreginn var með valdi út úr vél félagsins á dögunum. Bell var á ferð með flugfélaginu sama dag og hið öllu frægara atvik átti sér stað.

„Ég sleppti honum á bakkann fyrir framan mig og greip svo aftur í hann, það var þá sem ég var stunginn. Hann stakk mig í þumalfingurinn, alveg við nöglina,“ sagði Bell. „Hann stakk eins og vespa, eitthvað svoleiðis.“

Bell segist ánægður með viðbrögð áhafnarinnar en meðlimir hennar sturtuðu sporðdrekanum niður í klósett vélarinnar.

Heilbrigðisstarfsmenn tóku á móti Bell á flugvellinum í Calgary í Kanada að sögn talsmanns United Airlines en hann er ekki alvarlega slasaður. Þá hefur flugfélagið beðist afsökunar á atvikinu og boðist til að bæta upp fyrir slysið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×