Enski boltinn

Moyes sér eftir að hafa hótað íþróttafréttakonu barsmíðum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Moyes kom sér í klandur með ummælum sínum sem hafa verið gagnrýnd.
Moyes kom sér í klandur með ummælum sínum sem hafa verið gagnrýnd. vísir/getty
David Moyes, knattspyrnustjóri Sunderland, segist sjá mikið eftir því að hafa hótað að berja íþróttafréttakonu BBC.

Eins og fram kom á Vísi fyrr í dag var Moyes ekki sáttur með spurningu Vicki Sparks hjá BBC eftir markalaust jafntefli Sunderland og Burnley í síðasta mánuði.

„Ég myndi passa mig. Þú gætir verið slegin, jafnvel þótt þú sért kona. Passaðu þig næst þegar þú kemur,“ sagði Moyes við Sparks eftir að viðtalinu lauk.

Moyes bað Sparks seinna persónulega afsökunar og á blaðamannafundi í dag sagðist hann sjá eftir öllu.

„Þetta gerðist í hita augnabliksins,“ sagði Moyes. „Ég er ekki svona maður. Ég gengst við þessum mistökum. Ég talaði við fréttakonuna sem samþykkti afsökunarbeiðni mína.“

Moyes hefur víða verið gagnrýndur fyrir ummæli sín, m.a. af Dr. Rosenu Allin-Khan, skuggamálaráðherra Verkamannaflokksins í íþróttamálum.

„Þetta er smánarlegt. David Moyes getur ekki komist upp með svona karlrembuhótanir. Enska knattspyrnusambandið þarf að grípa í taumuna,“ sagði Allin-Khan.

Moyes og lærisveinar hans í Sunderland sitja á botni ensku úrvalsdeildarinnar með aðeins 20 stig, átta stigum frá öruggu sæti.

Sunderland sækir Leicester City heim á morgun.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×