Enski boltinn

Moyes hótaði að berja íþróttafréttakonu

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Moyes og félagar í Sunderland stefna hraðbyri niður í ensku B-deildina.
Moyes og félagar í Sunderland stefna hraðbyri niður í ensku B-deildina. vísir/getty
David Moyes, knattspyrnustjóri Sunderland, hefur beðist afsökunar á því að hafa hótað íþróttafréttakonu barsmíðum.

Eftir markalaust jafntefli Sunderland og Burnley í síðasta mánuði spurði Vicki Sparks hjá BBC Moyes hvort hann fyndi fyrir meiri pressu vegna þess að Ellis Short, stjórnarmaður Sunderland, væri í stúkunni að horfa á leikinn.

Moyes var langt frá því að vera ánægður með þessa spurningu og eftir að viðtalinu lauk hellti hann sér yfir Sparks.

„Ég myndi passa mig. Þú gætir verið slegin, jafnvel þótt þú sért kona. Passaðu þig næst þegar þú kemur,“ sagði Moyes.

Kollegi Sparks náði þessari hótun Moyes á myndband. Skotinn hefur nú beðist afsökunar á ummælum sínum að því er fram kemur í yfirlýsingu frá BBC.

Moyes og lærisveinar hans sitja á botni ensku úrvalsdeildarinnar með aðeins 20 stig, átta stigum frá öruggu sæti.

Stjóraferill Moyes hefur verið á hraðri niðurleið undanfarin ár, eða allt frá því hann tók við Manchester United af Sir Alex Ferguson sumarið 2013.

Moyes entist ekki eitt tímabil á Old Trafford og var svo rekinn frá Real Sociedad í nóvember 2015. Og nú stefnir allt í að hann sé að fara með Sunderland niður um deild.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×