Erlent

Assad segir árásina óábyrga og skeytingarlausa

Atli Ísleifsson skrifar
Bashar al-Assad Sýrlandsforseti.
Bashar al-Assad Sýrlandsforseti. Vísir/AFP
Bashar al-Assad Sýrlandsforseti hefur fordæmt eldflaugaárás Bandaríkjahers á herflugvöll sýrlenska stjórnarhersins í Homs í nótt. Lýsir hann árásinni sem skeytingarlausri og óábyrgri. AP greinir frá þessu.

Misvísandi fréttir hafa borist um fjölda látinna, en sýrleskur ríkisfjölmiðinn Sana segir að níu óbreyttir borgarar hafi látið lífið í árásinni, þar af fjögur börn. Segir að hinir látnu hafi verið íbúar í nálægu þorpi. Sjö til viðbótar hafi særst í árásinni. Ekki er ljóst hvort að þeir sex sem talsmaður Sýrlandshers hafði áður sagt hafa látið lífið í árásinni séu meðal þeirra níu sem Sana segir nú hafa látið lífið.

Talsmaður rússneska varnarmálaráðuneytisins segir að fjórir sýrlenskir hermenn hafi farist í árásinni, tveggja væri enn saknað og sex hafi hlotið brunasár.

Bandaríkjaher skaut 59 Tomahawk-eldflaugum á herflugvöllinn í Shayrat frá herskipunum USS Porter og USS Ross á Miðjarðarhafi klukkan 00:40 að íslenskum tíma í nótt.

Árásin á sér stað hálfum öðrum sólarhring eftir að Donald Trump Bandaríkjaforseti sagði að Bashar al-Assad Sýrlandsforseti hafi gengið allt of langt með efnavopnaárás Sýrlandshers í bænum Khan Sheikhoun í Idlib-héraði sem varð 83 manns að bana, meðal annars börnum og ungabörnum.

Nánar má lesa um árásina hér.


Tengdar fréttir

Gerðu árás á Sýrland

Bandaríski herinn skaut í kvöld um 50 Tomahawk eldflaugum að herflugvelli í Sýrlandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×