Enski boltinn

Jafnt í stórleiknum á Emirates

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Sané rennir boltanum í netið og kemur City í 0-1.
Sané rennir boltanum í netið og kemur City í 0-1. Vísir/Getty
Arsenal og Manchester City skildu jöfn, 2-2, þegar liðin mættust á Emirates í síðasta leik helgarinnar í ensku úrvalsdeildinni.

Stigið gerir lítið fyrir liðin. Arsenal er áfram í 6. sæti deildarinnar, sjö stigum frá Meistaradeildarsæti. City er enn í 4. sætinu, nú með 58 stig.

Leikurinn var aðeins fimm mínútna gamall þegar Leroy Sané kom City yfir. Þjóðverjinn slapp þá í gegn eftir stungusendingu Kevins De Bruyne, lék á David Ospina og skoraði af öryggi. Fimm mínútum síðar átti De Bruyne skot í stöngina á marki Arsenal.

Á 40. mínútu jafnaði Theo Walcott metin eftir klaufagang í vörn City. Þetta var fyrsta deildarmark Walcotts síðan hann skoraði í fyrri leiknum gegn City 18. desember á síðasta ári.

Rúmri mínútu síðar kom Sergio Agüero City yfir á nýjan leik. Argentínumaðurinn fékk boltann frá David Silva hægra megin í vítateignum og skoraði framhjá Ospina.

Staðan í hálfleik var 1-2 en á 53. mínútu jafnaði Shkodran Mustafi metin með skalla eftir hornspyrnu Mesuts Özil.

Fleiri urðu mörkin ekki og liðin sættust því að skiptan hlut. Lokatölur 2-2.

Hér að neðan má lesa textalýsingu frá leiknum:Leik lokið: Marriner flautar til leiksloka. Liðin sættast á skiptan hlut.

90+2. mín: Monreal fær boltann í höndina en ekkert dæmt.

89. mín: Zabaleta kemur inn fyrir Silva.

88. mín: Iwobi með skot yfir eftir laglega skyndisókn heimamanna.

85. mín: Silva lætur vaða fyrir utan teig en skotið er framhjá.

79. mín: Otamendi með slæm mistök en Willy kemur til bjargar og kemur í veg fyrir að Özil komi Arsenal yfir.

76. mín: Iwobi skiptir við Welbeck. Síðasta skipting Arsenal í leiknum.

75. mín: Stundarfjórðungur til leiksloka. Fáum við sigurmark?

68. mín: Giroud kemur inn fyrir Walcott. Kemur svolítið á óvart að Walcott þurfi að víkja. Hann hefur verið ógnandi í dag.

58. mín: Fernandinho með hörkuskot sem Ospina ver.

53. mín: MARK! Mustafi jafnar metin með skalla eftir hornspyrnu Özils! Þýsk samvinna þarna! Mustafi bæði búinn að skora og leggja upp í dag.

52. mín: Agüero með skalla framhjá eftir fyrirgjöf De Bruynes sem er kominn út á hægri kantinn.

Seinni hálfleikur hafinn: Tvær breytingar í hálfleik. Gabriel kemur inn fyrir Koscielny og Touré skiptir við Sterling.

Hálfleikur: Þvílíkum fyrri hálfleik lokið! City byrjaði betur og komst yfir á 5. mínútu með marki Sanés. Arsenal vann sig svo inn í leikinn og Walcott jafnaði á 40. mínútu. En Skytturnar sváfu á verðinum og Agüero kom City aftur yfir. Staðan því 2-1 í hálfleik.

45+2. mín: Walcott með skot rétt yfir. Verið hættulegur í fyrri hálfleik.

42. mín: MARK! Staðan var jöfn í rúma mínútu! Özil tapar boltanum, hann berst til Silva sem finnur Agüero hægra megin í teignum. Argentínumaðurinn leggur boltann fyrir sig og setur hann í fjærhornið. Rennur í skotinu en það gerir ekkert til. Fjórtánda deildarmark Agüeros á tímabilinu.

40. mín: MARK! Walcott jafnar metin! City á vandræðum með að hreinsa frá eftir hornspyrnu, Clichy spilar þrjá leikmenn Arsenal réttstæða og nær ekki að stöðva Walcott sem kemur boltanum í markið. Walcott skoraði einnig í fyrri leiknum gegn City en hafði ekki skorað síðan þá.

38. mín: Stones skallar framhjá eftir hornspyrnu frá Silva. Lítil hætta á ferðum þarna.

32. mín: Xhaka fær gult spjald fyrir tæklingu á Otamendi. Aðeins fjórða gula spjaldið sem Svisslendingurinn fær í ensku úrvalsdeildinni. Hefur hins vegar fengið tvö rauð.

29. mín: Sánchez í álitlegri stöðu en Fernandinho bjargar með góðri tæklingu. Ekkert víti þarna.

21. mín: Özil snýr á Stones en skotið er laust og beint á Willy. Betra frá Skyttunum.

20. mín: Leikurinn hefur róast aðeins eftir ótrúlega byrjun.

10. mín: De Bruyne setur boltann í stöngina! Boltinn berst til Silva sem á skot sem Ospina ver. Það er allt í rugli í vörn Arsenal.

5. mín: MARK! Sané kemur City yfir! De Bruyne með frábæra sendingu inn fyrir illa skipulagða vörn Arsenal á Sané sem leikur á Ospina og rennir boltanum í netið. 0-1.

4. mín: Viðvörunarbjöllur hjá City. Welbeck tæklar boltann framhjá.

4. mín: Fernandinho setur Sterling í gegn en hann er skíthræddur við Ospina sem bjargar.

Leikurinn hafinn: Andre Marriner flautar til leiks!

Fyrir leik: City vann fyrri leikinn gegn Arsenal með tveimur mörkum gegn einu. Theo Walcott kom Arsenal yfir strax á 5. mínútu en Leroy Sané jafnaði metin í upphafi seinni hálfleiks. Það var svo Raheem Sterling skoraði sigurmark City á 71. mínútu.

Fyrir leik: Pep Guardiola gerir eina breytingu á byrjunarliði City frá 1-1 jafnteflinu við Liverpool. Jesús Navas kemur inn fyrir Yaya Touré.

Fyrir leik: Byrjunarliðin eru komin í hús. Arsene Wenger gerir þrjár breytingar á liðinu sem tapaði fyrir West Brom í síðustu umferð. David Ospina, Francis Coquelin og Mesut Özil koma inn fyrir Petr Cech, Aaron Ramsey og Alex Oxlade-Chamberlin.

Byrjunarlið Man City: Willy Caballero - Jesús Navas, John Stones, Nicolás Otamendi, Gaël Clichy - Kevin De Bruyne, Fernandinho, David Silva - Raheem Sterling, Sergio Agüero, Leroy Sané.

Byrjunarlið Arsenal: David Ospina - Héctor Bellerín, Shkodran Mustafi, Laurent Koscielny, Nacho Monreal - Francis Cocquelin, Granit Xhaka - Theo Walcott, Mesut Özil, Alexis Sánchez - Danny Welbeck.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.