Erlent

Skutu ódýran dróna með rándýrri eldflaug

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Frekar ósanngjörn barátta.
Frekar ósanngjörn barátta. Vísir/Getty
Bandarísk Patriot-eldflaug, sem kostar um þrjár milljónir dollara, var nýverið notuð af bandamanni Bandaríkjanna til þess að skjóta niður ódýran dróna. Slík tæki hafa í auknum mæli verið notuð af hryðjuverkahópum til árása. BBC greinir frá.

Þetta kom fram í máli David Perkins, hershöfðingja í Bandaríkjaher, á herrráðstefnu í Bandaríkjunum þar sem hann viðurkenndi að slík notkun á eldflaugunum væri líklega ekki „efnahagslega hagkvæm“.

Patriot-eldflaugar eru radar-stýrðar og helst notaðar til þess að skjóta niður flugvélar og aðrar eldflaugar. Í máli Perkins kom fram að dróninn hefði kostað um 200 dollara og hafi ekki átt séns gegn eldflauginni.

Ekki kom fram í máli Perkins hvar eldflaugin skaut niður drónann eða hvaða bandamaður var að verki en hann sagði þó að um „mjög náinn bandamann“ hafi verið um að ræða.

Hryðjuverkahópar, þá sérstaklega í Írak, hafa í auknum mæli notað dróna í árásum sínum með því að festa vopn á borð við sprengjur við dróna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×