Erlent

Sprengdi sig í loft upp meðal mótmælenda

Samúel Karl Ólason skrifar
Talið er að minnst sjötíu séu særðir.
Talið er að minnst sjötíu séu særðir. Vísir/AFP
Minnst ellefu eru látnir og tugir eru særðir eftir sprengjuárás í Lahore í Pakistan í dag. Svo virðist sem að árásarmaður hafi sprengt sig í loft upp innan um fjölda mótmælenda í borginni. Eigendur apóteka höfðu komið saman til að mótmæla nýrri lagasetningu vegna sölu lyfja í Punjab héraði þegar sprengingin varð.

Búist er við því að fjöldi látinna muni hækka enn frekar.

Lögregluþjónar eru meðal hinna látnu, en Jamaat-ul-Ahrar, samtök pakistanskra Talibana, hafa lýst yfir ábyrgð á árásinni samkvæmt BBC. Stjórnvöld segja árásina vera svar samtakanna við árásum hersins gegn þeim.

Talsmaður JUA segir árásina í dag einungis vera byrjunina. Íbúar Lahore hafa gengið í gegnum fjölmargar hryðjuverkaárásir á síðustu árum. Um páskana í fyrra dóum rúmlega 70 manns, þar af mörg börn, þegar stór sprengja var sprengd í almenningsgarði í borginni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×