Erlent

Dómsmálaráðuneytið ver ferðabann Trumps

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
Tilskipunin meinaði íbúum sjö múslimalanda að ferðast til Bandaríkjanna og var sagt að um tímabundna aðgerð var að ræða.
Tilskipunin meinaði íbúum sjö múslimalanda að ferðast til Bandaríkjanna og var sagt að um tímabundna aðgerð var að ræða. vísir/epa
Dómsmálaráðuneyti Bandaríkjanna segir ferðabann Donalds Trump Bandaríkjaforseta vera löglegt og hvetur áfrýjunardómstól til að festa tilskipunina aftur í gildi.

Í fimmtán blaðsíðna skýrslu ráðuneytisins sagði að tilskipunin væri lögleg notkun á valdi forsetans en ekki bann við múslimum. Búist er við því að áfrýjunardómstóll taki málið upp í dag.

Tilskipunin meinaði íbúum sjö múslimalanda að ferðast til Bandaríkjanna og var sagt að um tímabundna aðgerð var að ræða.

James Robart, alríkisdómari í Washigton ríki, lagði bráðabirgðabann á tilskipun Trump og fór þar með gegn fullyrðingum lögmanna bandaríska ríkisins þess efnis að yfirvöld í Bandaríkjunum gæti ekki farið gegn tilskipun Bandaríkjaforseta. Robart tók fram að úrskurður hans gilti um landið allt.

Í kjölfar úrskurðar Robart gat fólk frá löndunum sjö aftur ferðast til Bandaríkjanna. Um var að ræða borgara Írans, Íraks, Líbíu, Sómalíu, Súdan, Sýrlands og Jemen.

Í skýrslu dómsmálaráðuneytisins sem var gerð opinber í gærkvöldi segir að jafnvel þótt bann Robarts hafi átt rétt á sér að einhverju leyti hafi hann gengið of langt með því að segja það gilda um landið allt.

Ráðuneytið segir máli sínu til stuðnings að forsetinn sé best til þess fallinn að taka ákvarðanir sem varða þjóðaröryggi. Þá segir jafnframt að rangt sé að kalla tilskipunina bann við múslimum þar sem löndin hafi verið valin vegna hryðjuverkahættu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×