Swansea endaði viðburðarríkt tímabil með 2-1 sigri á West Bromwich Albion í gær og endaði þar með í fimmtánda sæti ensku úrvalsdeildarinnar.
Liðið komst upp fyrir Burnley og Watford í lokaumferðinni en Swansea vann þrjá síðustu leikina sína og fékk 13 stig af 15 mögulegum í síðustu fimm leikjunum.
Lok hvers tímabils eru alltaf tímamót og Swansea losaði í dag átta leikmenn félagsins undan samningi. Félagið segir frá þessu á heimasíðu sinni.
Meðal þessara átta leikmanna sem misstu vinnuna hjá Swansea voru markvörðurinn Gerhard Tremmel og hollenski framherjinn Marvin Emnes.
Tremmel er 38 ára gamall og kom til Swansea í ágúst 2010. Hann lék 52 leiki fyrir velska félaginu.
Marvin Emnes kom endanlega til liðsins 2014 eftir að hafa verið áður á láni hjá félaginu. Hann náði aðeins að byrja níu leiki í ensku úrvalsdeildinni. Emnes spilaði með Blackburn á þessu tímabili.
Aðrir sem misstu vinnuna hjá Swansea í dag eru þeir Liam Shephard, Josh Vickers, Owain Jones, Tom Dyson og Tom Holland. Alex Samuel missti líka samninginn en samdi strax við Stevenage.
Íslenskir knattspyrnuáhugamenn bíða spenntir eftir fréttum frá Liberty-leikvanginum á næstu vikum og mánuðum enda verður mjög spennandi að sjá hvað Gylfi okkar Sigurðsson gerir.
Swansea vill halda honum, Gylfi segist vilja vera áfram en allir búast við að stærri félög eins og Tottenham eða Everton bjóði stórar upphæðir í íslenska landsliðsmanninn í sumar.
Átta liðsfélagar Gylfa misstu vinnuna í dag

Tengdar fréttir

Gylfi og félagar kláruðu tímabilið með þriðja sigrinum í röð | Sjáðu mörkin
Gylfi Þór Sigurðsson lék allan leikinn þegar Swansea City vann 2-1 sigur á West Brom í lokaumferð ensku úrvalsdeildarinnar í dag.

Glenn Hoddle: Gylfi bestur utan efstu sex liðanna
Fyrrverandi landsliðsþjálfari Englands telur Gylfa Þór Sigurðsson passa fullkomlega inn í leikstíl Tottenham.

Kane tryggði sér gullskóinn með átta mörkum í síðustu þremur leikjunum
Harry Kane skoraði flest mörk allra í ensku úrvalsdeildinni í vetur, eða 29 talsins.