Erlent

Neitar að hafa gefið upp Ísrael sem heimildarmann

Sunna Sæmundsdóttir skrifar
Donald Trump Bandaríkjaforseti lenti í Ísrael í morgun og í stuttu ávarpi á flugvellinum í Tel Aviv sagði Trump að fágætt tækifæri til friðar lægi nú fyrir.

Donald Trump flaug frá Saudí-Arabíu til Tel Aviv í Ísrael í morgun en þaðan hélt hann til Jerúsalem þar sem hann skoðaði Grafarkirkjuna og bað bænir við Grátmúrinn. Trump varð með þessu fyrsti sitjandi Bandaríkjaforsetinn til að heimsækja múrinn sem hefur alla tíð verið bitbein milli Ísraels og Palestínu.

Í ávarpi við komuna á flugvöllinn sagðist Trump hafa nýja von um frið og stöðugleika í Mið-Austurlöndum eftir heimsóknina til Saudí-Arabíu.

Á stuttum fundi með Reuven Rivlin, forseta Ísraels, sagðist Trump telja að fólk á svæðinu væri einfaldlega komið með nóg og vildi breytingar. Þá var hann harðorður í garð Írana og sagði að þeir mættu aldrei eignast kjarnorkuvopn.

Á blaðamannafundi með Netanyahu síðdegis í dag neitaði Trump því að hafa nefnt Ísrael sem heimildarmann upplýsinga um Ríki Íslams fundi með Sergey Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, fyrr í mánuðinum en því gagnstæða hefur verið haldið fram.

Heimsókn Trumps hefur vakið misjöfn viðbrögð en á sama tíma og forsetinn lenti í Tel Aviv lögðu um eitt þúsund Palestínumenn á Vesturbakkanum niður störf til stuðnings föngum sem eru í mótmælasvelti í ísraelskum fangelsum. Aðrir héldu á skiltum með andliti Trumps með rauðu skófari. Sögðu þeir bandarísk stefnumál vera skammarspor á mannkyninu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×