Innlent

Blóð fannst í Kia Rio bifreiðinni

Jóhann K. Jóhannsson og Samúel Karl Ólason skrifa
Þetta er fyrsta örugga vísbendingin um að Birna hafi verið í bílnum á einhverju tímabili, og styður við farsímagögn sem lögregla hefur skoðað undanfarna daga.
Þetta er fyrsta örugga vísbendingin um að Birna hafi verið í bílnum á einhverju tímabili, og styður við farsímagögn sem lögregla hefur skoðað undanfarna daga. Vísir
Lögreglan hefur fundið blóð í Kia Rio bifreiðinni sem annar Grænlendinganna sem nú er í gæsluvarðhaldi var með á leigu. Samkvæmt áreiðanlegum heimildum fréttastofu er talið að blóðið sé úr Birnu Brjánsdóttur.

Það á þó eftir að staðfesta það endanlega með DNA rannsóknum en sýnið var sent til útlanda til nánari greiningar eftir að lögregla haldlagði bifreiðina síðast liðinn þriðjudag. Áður hafði Vísir greint frá því að gögn hefðu fundist í bílnum sem bentu til þess að misindisverk hefði verið framið.

Mennirnir voru úrskurðaðir í tveggja vikna gæsluvarðhald í Héraðsdómi Reykjaness en ákæruvaldið hefur kært úrskurðinn til Hæstaréttar og fer fram á gæsluvarðhald í fjórar vikur.Vísir/Anton Brink
Blóðsýni sent út til rannsóknar

Einar Guðberg Jónsson, lögreglufulltrúi, staðfestir við fréttastofu að blóðsýni hafi fundist í bílnum og það hafi verið sent út til rannsóknar.

Þetta er besta vísbending lögreglu um að Birna hafi verið í bílnum á einhverju tímabili, og styður við farsímagögn sem lögregla hefur skoðað undanfarna daga.

Mennirnir hafa verið úrskurðaðir í tveggja vikna gæsluvarðhald, en ákæruvaldið kærði úrskurð héraðsdóms og fer fram á fjóra vikur. Þeir eru grunaðir um manndráp.

Mennirnir voru yfirheyrðir við komuna til landsins á miðvikudagskvöld, aftur í gær og yfirheyrslum var framhaldið í dag.

Grímur Grímsson, sem stýrir rannókninni á hvarfi Birnu, reiknar ekki með því að yfirheyrslum verði framhaldið um helgina nema nýjar vísbendingar komi fram.

Víðtæk leit um helgina

Birna hvarf í miðbænum á aðfaranótt síðasta laugardags og ekkert hefur spurst til hennar síðan. Framundan er ein stærsta leitaraðgerð ef ekki sú stærsta á suðvesturhorni landsins á morgun.

Þá hefur lögregla lýst eftir ökumanni hvítrar bifreiðar á hafnarsvæðinu í Hafnarfirði um klukkan 12:24 í hádeginu á laugardag. Sömuleiðis er óskað eftir því að eigendur bíla með myndavélabúnað, sem voru á ferðinni á suðvesturhorninu frá 7 til 11:30 á laugardagsmorgun, skoði upptökur í bílnum sínum. Í þeim tilgangi að athuga hvort rauðu Kia Rio bifreiðinni bregður fyrir.

Birnu hefur verið saknað í tæpa viku en hún sást síðast á eftirlitsmyndavél á Laugavegi klukkan 05:25 að morgni laugardags.


Tengdar fréttir

Skipverjarnir höfðu um 100 klukkustundir til þess að samræma framburð

Grænlensku skipverjarnir tveir sem úrskurðaðir hafa verið í tveggja vikna gæsluvarðhald vegna gruns um að eiga aðild að hvarfi Birnu Brjánsdóttur höfðu um 100 klukkustundir til þess að samræma framburð, sé miðað við það að Birna hverfur snemma á laugardagsmorgun og mennirnir eru ekki handteknir fyrr en um borð í Polar Nanoq fyrr en í hádeginu á miðvikudegi.

Grunaðir um manndráp

Tveir skipverjar á Polar Nanoq voru í gær úrskurðaðir í gæsluvarðhald á grundvelli 211.gr almennra hegningarlaga sem fjallar um manndráp.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×