Innlent

Skipverjarnir höfðu um 100 klukkustundir til þess að samræma framburð

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Á kortinu má sjá ferðir Polar Nanoq frá því það leggur úr höfn á laugardagskvöld og þar til það kemur aftur til Hafnarfjarðar á miðvikudagskvöld.
Á kortinu má sjá ferðir Polar Nanoq frá því það leggur úr höfn á laugardagskvöld og þar til það kemur aftur til Hafnarfjarðar á miðvikudagskvöld. vísir/garðar/loftmyndir
Grænlensku skipverjarnir tveir sem úrskurðaðir hafa verið í tveggja vikna gæsluvarðhald vegna gruns um að eiga aðild að hvarfi Birnu Brjánsdóttur höfðu um 100 klukkustundir til þess að samræma framburð, sé miðað við það að Birna hverfur snemma á laugardagsmorgun og mennirnir eru ekki handteknir fyrr en um borð í Polar Nanoq fyrr en í hádeginu á miðvikudegi. Þá komu íslenskir sérsveitarmenn um borð í grænlenska togarann og voru mennirnir þá skildir að.

Mennirnir tveir sem eru í haldi lögreglu eru grunaðir um manndráp. Þeir hafa verið í einangrun á lögreglustöðinni á Hverfisgötu síðan á aðfaranótt fimmtudags en Polar Nanoq kom til hafnar í Hafnarfirði seint á miðvikudagskvöld. Skipið fór frá Íslandi á laugardagskvöld en var snúið við síðdegis á þriðjudag.

Í gær úrskurðaði héraðsdómur skipverjana tvo í tveggja vikna gæsluvarðhald en lögreglan hafði farið fram á fjögurra vikna varðhald. Úrskurðurinn var því kærður til Hæstaréttar en ekki liggur fyrir hvenær hann mun kveða upp sinn dóm. Það er þó talið líklegt að það verði í dag.

Sakborningum tekst aldrei 100 prósent að samræma framburð

Grímur Grímsson, yfirlögregluþjónn sem stýrir rannsókninni á hvarfi Birnu, segir það liggja fyrir í málinu að skipverjarnir á Polar Nanoq höfðu upplýsingar um það að lögregluyfirvöld á Íslandi kynnu að vilja að ná tali af þeim.

„Það er síðan nokkuð langur tími sem líður áður en þeir eru handteknir þannig að það blasir þá við að menn hafa tækifæri til að tala saman,“ segir Grímur.

Hann segir að það hefði verið betra ef fjölmiðlar hefðu ekki greint svo fljótt frá hugsanlegum tengslum skipverja á grænlenska togaranum við hvarf Birnu en telur það þó ekki hafa spillt rannsóknarhagsmunum.

En hvaða áhrif hefur það á rannsóknina ef hinir grunuðu hafa tækifæri til að bera saman bækur sínar og samræma framburði?

„Það er náttúrulega vont ef sakborningar ná að samræma framburð en það er nú þannig að slíkt tekst aldrei 100 prósent þannig að það getur líka ákveðinn vandi fyrir menn að samræma framburð. Það getur verið erfitt fyrir menn að halda utan um hvað maður ætlar að segja.“

Maður getur lent í ógöngum?

„Maður getur lent í ógöngum þegar maður segir ekki satt, það er vandinn við það að segja ósatt.“

Hér að neðan má heyra viðtal við Grím úr Harmageddon frá því í morgun.


Tengdar fréttir

Grunaðir um manndráp

Tveir skipverjar á Polar Nanoq voru í gær úrskurðaðir í gæsluvarðhald á grundvelli 211.gr almennra hegningarlaga sem fjallar um manndráp.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×