Erlent

Trump vill ekki að Bandaríkin verði eins og Evrópa

nína hjördís þorkelsdóttir skrifar
Tilskipun Trumps hefur þegar haft víðtæk áhrif.
Tilskipun Trumps hefur þegar haft víðtæk áhrif. Vísir/AFP
Donald Trump lét þau orð falla á Twitter í dag að nauðsynlegt sé að herða landamæri Bandaríkjanna,  annars myndi skapast þar sama ófremdarástand og nú ríkir í Evrópu að hans mati. „Sjáið þið hvað er í gangi alls staðar í Evrópu og raunar í heiminum öllum – allt í steik!“

Tilskipun sem Trump undirritaði fyrr í vikunni hefur vakið hörð viðbrögð um allan heim en hún felur í sér bann við inngöngu ríkisborgara frá Írak, Íran, Sómalíu, Súdan, Sýrlandi og Jemen inn í Bandaríkin. Bannið gildir einnig um þá sem fengið hafa varanlegt dvalar- og atvinnuleyfi í landinu.

Vísir greindi frá því í gær að glundroði hafi skapast á flugvöllum víða í Bandaríkjunum vegna bannsins. Mótmælendur flykktust á nokkra af helstu alþjóðaflugvelli landsins í gær. Ófá dæmi eru um að fólk frá einhverju af ríkjunum sjö sem bannið tekur til séu í haldi á flugvöllum eða strandarglópar erlendis.

Trump fer hamförum á Twitter

Bandaríkjaforseti lýsti einnig yfir áhyggjum sínum af morðum á kristnum borgurum í Mið-Austurlöndum á Twitter í dag.

„Kristnir í Mið-Austurlöndum hafa verið teknir af lífi í hrönnum. Við getum ekki leyft þessum hryllingi að halda áfram,“ tísti hann.

Trump skaut jafnframt föstum skotum að dagblaðinu The New York Times og sakaði miðilinn um falska fréttamennsku. Tístið er í raun innlegg í lengri syrpu forsetans um dagblaðið sem hófst í gær. Hann hefur að sama skapi beint sjónum sínum að The Washington Post.

„Hið misheppnaða @nytimes hefur haft rangt fyrir sér frá upphafi. Þeir sögðu að ég myndi tapa forkosningunum og síðan forsetakosningunum. FALSKAR FRÉTTIR!,“ sagði hann í gær.


Tengdar fréttir

Utanríkisráðherra harmar ákvörðun Trumps

Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra, segist harma ákvörðun Donalds Trump, Bandaríkjaforseta sem meinar íbúum sjö múslimaríkja inngöngu í Bandaríkin tímabundið.

Óska eftir fundi í utanríkismálanefnd Alþingis vegna Trump

Rósa Björk Brynjólfsdóttir og Steinunn Þóra Árnadóttir, þingkonur Vinstri grænna í utanríkismálanefnd Alþingis hafa óskað eftir því að nefndin fundi hið fyrsta með utanríkisráðherra til að ræða viðbrögð við fyrirskipun Donald Trump, forseta Bandaríkjanna, um að banna fólki frá sjö löndum að ferðast til Bandaríkjanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×