Erlent

Mótmælt víða um Bandaríkin

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Mótmæli við John F. Kennedy flugvöllinn í New York.
Mótmæli við John F. Kennedy flugvöllinn í New York. vísir/epa
Mörg þúsund manns hafa komið saman víða um Bandaríkin í dag og mótmælt ákvörðun Donalds Trump Bandaríkjaforseta um að meina ríkisborgurum sjö þjóða inngöngu í landið. Ákvörðunin hefur  verið harðlega gagnrýnt og Trump verið sakaður um að brjóta á mannréttindum fólks.

Mótmælt hefur verið við Hvíta húsið og flesta stærstu flugvelli Bandaríkjanna í gær og í dag og má þar meðal annars nefna JFK flugvöllinn í New York þar sem þúsundir hafa safnast saman, bæði inni á flugvellinum og fyrir utan.

Þá var því jafnframt mótmælt í gær að írakski karlmaðurinn Hameed Khalid Darweesh hafi verið handtekinn við komu sína til landsins í gær, þrátt fyrir að vera með gilda vegabréfsáritun, en mikil fagnaðarlæti brutust út þegar hann gekk út af flugvellinum, líkt og sjá má á myndskeiðinu hér fyrir neðan.

Tugþúsundir komu saman í miðborg Boston en þar hélt fólk á skiltum og hrópaði slagorð á borð við „Hleypið fólkinu okkar inn“ og „Innflytjendur gera Ameríku frábæra“ en með því er vísað til slagorðs Trump: „Make America great again“.

Einnig er mótmælt í San Fransisco en þar hefur mikill fjöldi fólks safnast saman fyrir utan flugvöllinn. Í Dallas mótmælti fólk meðal annars með því að krjúpa á bænateppi inni á flugvellinum.

Mannréttindasamtök, þjóðarleiðtogar, ríkisstjórar og stórfyrirtæki á borð við Google hafa gagnrýnt þessa stefnu Trump hafðlega. Angela Merkel, kanslari Þýskalands, hefur sagt að það sé ekki réttlætanlegt að gera íbúa tiltekinna ríkja og ákveðinnar trúar tortryggilega í baráttunni við hryðjuverk.

Þá hefur Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, sagt að hún muni ekki styðja ákvörðun forsetans og Justin Trudeau, forsætisráðherra Kanada, sagt að þeir sem flýi ofsóknir, hryðjuverk og stríð séu velkomnir til Kanada, óháð trú.

Donald Trump sagði á blaðamannafundi í Hvíta húsinu í gær að tilskipunin virki vel. „Þið sjáið það á flugvöllum og alls staðar. Þetta gengur mjög vel. Bannið verður mjög strangt og við munum viðhafa mjög strangt eftirlit,“ sagði Trump.


Tengdar fréttir

Utanríkisráðherra harmar ákvörðun Trumps

Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra, segist harma ákvörðun Donalds Trump, Bandaríkjaforseta sem meinar íbúum sjö múslimaríkja inngöngu í Bandaríkin tímabundið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×