Erlent

Donald Trump: „Þetta er eitthvað sem myndi gerast í Þýskalandi nasismans“

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Donald Trump, verðandi forseti Bandaríkjanna, á blaðamannafundinum í dag.
Donald Trump, verðandi forseti Bandaríkjanna, á blaðamannafundinum í dag. vísir/epa
Donald Trump, verðandi forseti Bandaríkjanna, fór mikinn á sínum fyrsta blaðamannafundi í dag. Eitt af því sem mikið var rætt eru ásakanir sem settar hafa verið fram á hendur Trump og kosningateymi hans þess efnis að þau hafi unnið með Rússum auk þess sem fjallað var um fréttir um að Rússar hefðu yfir höndum efni, myndbönd og annað, sem gætu komið sér illa fyrir forsetann.  

Trump var harðorður í garð leyniþjónustu Bandaríkjanna og sakaði hana um að leka röngum upplýsingum í fjölmiðla þar sem ekkert væri hæft í þeim ásökunum að hann hefði unnið með Rússum. Þá hefðu þeir ekki undir höndum neitt sem gæti komið sér illa fyrir hann sem forseta Bandaríkjanna.

„Þetta er eitthvað sem myndi gerast í Þýskalandi nasismans,“ sagði Trump svo um leyniþjónustuna.

Upplýsingarnar sem komu fram í gær, meðal annars í frétt CNN og Vísir greindi frá, voru í samantekt sem bæði Trump og Barack Obama, fráfarandi forseti, fengu kynningu á í liðinni viku.

Trump sagði á blaðamannafundinum í dag að fjölmiðlar hefðu aldrei átt að fjalla um þessa samantekt enda væri þetta allt uppspuni og lygafréttir. Þá sagði hann að það væri skammarlegt að leyniþjónustan hefði leyft upplýsingum á borð við þessar að leka út.

Hér að neðan má svo sjá nokkur tíst frá Trump þar sem hann var líka að svara fyrir ásakanirnar. 


Tengdar fréttir

Trump telur Rússa líklega bera ábyrgð á tölvuárásum fyrir kosningarnar

Donald Trump verðandi forseti Bandaríkjanna hélt sinn fyrsta blaðamannafund í dag síðan hann var kjörinn forseti Bandaríkjanna. Á fundinum var meðal annars farið yfir skýrslu, sem nýlega kom fram, þar sem rússnesk stjórnvöld eru sögð bera ábyrgð á tölvuárásum sem demókrataflokkurinn varð fyrir rétt fyrir forsetakosningarnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×