Erlent

Um fjörutíu látnir eftir árás á skemmtistað í Istanbúl

Atli Ísleifsson skrifar
Áætlað er að um sjö hundruð manns hafi veirð inni á skemmtistaðnum þegar árásin var gerð.
Áætlað er að um sjö hundruð manns hafi veirð inni á skemmtistaðnum þegar árásin var gerð. Vísir/EPA
Að minnsta kosti 39 eru látnir og 69 særðir eftir skotárás á skemmtistað í tyrknesku borginni Istanbúl í nótt.

Suleyman Soylu, innanríkisráðherra Tyrklands, segir að leit standi enn yfir að árásarmanninum sem talinn er að hafa verið einn að verki.

Árásin varð á næturklúbbnum Reina klukkan 1:30 í nótt að staðartíma, 22:30 að íslenskum tíma, þar sem gestir voru saman komnir til að fagna áramótunum.

Í frétt BBC segir að að minnsta kosti fimmtán erlendir ríkisborgarar hafi verið í hópi hinna látnu. Þrír af þeim sem féllu voru tyrkneskir starfsmenn skemmtistaðarins, en búið er að bera kennsl á 21 fórnarlamb.

Fyrstu fréttir hermdu að árásarmaðurinn hafi verið klæddur jólasveinabúning, en myndir úr öryggismyndavélum benda til þess að hann hafi klæðst svörtum frakka fyrir utan staðinn. Soylu segir að árásarmaðurinn hafi verið klæddur öðrum fatnaði á leið sinni úr, en útlistaði það ekki nánar.

Erdogan Tyrklandsforseti segir að þessari „svívirðilegu árás“ á skemmtistaðinn hafi verið ætlað að draga kjarkinn úr Tyrkjum og skapa ringulreið.

Vasip Sahin, ríkisstjóri Istanbúl, segir að árásarmaðurinn hafi drepið lögreglumann og vegfaranda til bana áður en hann hélt inn á staðinn.

Áætlað er að um sjö hundruð manns hafi veirð inni á skemmtistaðnum þegar árásin var gerð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×