Enski boltinn

Klopp: Fannst eins og allir íbúar Plymouth væru inni í vítateignum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Klopp þakkar leikmönnum Plymouth fyrir eftir leikinn á Anfield í dag.
Klopp þakkar leikmönnum Plymouth fyrir eftir leikinn á Anfield í dag. vísir/getty
Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, segir að Plymouth Argyle hafi verðskuldað jafnteflið sem liðið náði í á Anfield í 3. umferð ensku bikarkeppninnar í dag.

Klopp tefldi fram ungu liði gegn Plymouth sem er í 2. sæti D-deildarinnar. Þrátt fyrir að vera með boltann nánast allan tímann tókst Rauða hernum ekki að skora og því þurfa Liverpool og Plymouth að mætast öðru sinni á Home Park, heimavelli Plymouth.

„Þetta eru ekki úrslitin sem við vonuðumst eftir en þetta er ekki svekkjandi. Svona er fótboltinn. Playmouth átti jafnteflið og aukaleikinn skilið,“ sagði Klopp eftir leikinn í dag.

„Við byrjuðum vel en misstum þolinmæðina of snemma og fórum að þvinga hlutina. Liðið hefði getað spilað miklu betur. Nú förum við til Plymouth í fyrsta sinn á minni ævi.“

Liverpool var miklu meira með boltann í leiknum í dag en skapaði sér fá færi gegn þéttum varnarmúr gestanna.

„Ég veit ekki hvað búa margir í Plymouth en mér leið eins og allar íbúar borgarinnar væru inni í vítateignum,“ sagði Klopp sem varði liðsval sitt.

„Við þurftum að vera svalir og þolinmóðir, það er stærsta áskorunin þegar þú spilar á móti liði sem liggur svona aftarlega. Ég ákvað að gera breytingar og tefla fram ungu liði - svona er lífið.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×