Kim Jong Nam, eldri hálfbróðir Kim-Jong-un, leiðtoga Norður-Kóreu, er sagður hafa verið myrtur í Malasíu. Fjölmiðlar segja sumir að norður-kóreskir leyniþjónustumenn hafi eitrað fyrir honum.
Suður-kóreski fjölmiðillinn Yonhap hefur eftir heimildarmönnum sínum að morðið hafi átt sér stað í gærmorgun.
Lögregla í Malasíu greinir frá því að óþekktur maður hafi dáið á leið frá flugvellinum í Kuala Lumpur á sjúkrahús. Ekki hefur verið greint opinberlega frá því hvern um ræðir, en starfsmaður bráðadeildar sjúkrahúsins Putrajaya segir að Norður-Kóreumaður að nafni Kim, sem fæddur var 1970, hafi látið lífið.
Suðurkóreski fjölmiðillinn Chosun segir frá því að eitrað hafi verið fyrir hinum 45 ára hálfbróður leiðtogans á flugvellinum í Kuala Lumpur af tveimur konum, sem taldar eru útsendarar Norður-Kóreustjórnar. Eiga þær að hafa notast við eiturnálar og svo að hafa flúið af vettvangi í leigubíl.
Kim Jong-un og hálfbróðirinn Kim Jong Nam eiga ekki að hafa verið nánir, en þeir eru báðir synir fyrrverandi leiðtogans Kim Jong-il. Kim Jong Nam hefur stærstan hluta ævi sinnar dvalið annars staðar en í Norður-Kóreu og hefur áður gagnrýnt það tangarhald sem fjölskylda hans hefur á landinu.
Kim Jong Nam á að hafa verið náinn Jang Song Thaek, sem var kvæntur systur Kim Jong-il, og var tekinn af lífi árið 2013, eftir skipun frá Kim Jong-un.
Árið 2001 var Kim Jong Nam handtekinn með falsað vegabréf á japönskum flugvelli. Hann sagðist þá vilja heimsækja Disneyland í japönsku höfuðborginni Tokýó. Hann var vanur því að heimsækja Hong Kong, Macau og meginland Kína.
Hálfbróðir Kim Jong-un sagður hafa verið myrtur í Malasíu
atli ísleifsson skrifar
