Erlent

Mjótt á mununum í Noregi

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Samkvæmt könnunum heldur stjórn Ernu Solberg velli.
Samkvæmt könnunum heldur stjórn Ernu Solberg velli. vísir/EPA
Ríkisstjórn Íhaldsflokksins og Framfaraflokksins undir forystu Ernu Solberg forsætisráðherra og með stuðningi Kristilegra demókrata og Frjálslynda flokksins heldur samkvæmt nýrri skoðanakönnun sem TV2 birti um helgina.

Norðmenn ganga til kosninga í dag og ef marka má könnunina mun stjórnarandstaðan fá 84 menn kjörna en ríkisstjórnin auk Frjálslyndra og Kristilegra demókrata 85, sem yrði minnsti mögulegi meirihluti.

Verkamannaflokkurinn undir forystu Jonas Gahr Støre mælist enn stærstur með 28,1 prósents fylgi, sem er þó hálfu prósentustigi minna en í síðustu könnun. Íhaldsflokkurinn mælist með 23,8 prósenta fylgi, 0,4 prósentustigum meira en síðast.

Lítil hreyfing hefur verið á fylgi flokka á milli kannana TV2 enda ekki nema dagur sem leið á milli þeirra. Mesta sveiflan varð á fylgi Framfaraflokksins, sem fór úr 15,2 prósentum í 14,6, og Frjálslyndra, sem fóru úr 3,9 og upp í 4,6 prósent.

Samkvæmt útreikningum TV2 stefnir í að Verkamannaflokkurinn fái fimmtíu þingmenn og missi þar með fimm sæti. Íhaldsflokkurinn fái hins vegar 42 þingmenn og missi sex.

Framfaraflokkurinn myndi missa einn þingmann og fá 28, Frjálslyndi flokkurinn myndi missa einn og fá átta og Kristilegir demókratar missa tvo og einnig fá átta. Ljóst er því að það stefnir í að báðir ríkisstjórnarflokkarnir og flokkarnir tveir sem verja stjórnina vantrausti virðast ætla að missa þingmenn. 
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.