Erlent

Dæmdur í 18 ára fangelsi fyrir að myrða stjúpdóttur sína með öxi

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Maðurinn viðurkenndi fyrir dómi að hafa orðið valdur að dauða stjúpdóttur sinnar með því að veitast að henni.
Maðurinn viðurkenndi fyrir dómi að hafa orðið valdur að dauða stjúpdóttur sinnar með því að veitast að henni. vísir/getty
Héraðsdómurinn í Värmlandi í Svíþjóð hefur dæmt 36 ára gamlan karlmann í 18 ára fangelsi fyrir að myrða stjúpdóttur í maí síðastliðnum en hún var 21 árs gömul þegar morðið var framið.

Þetta er í annað skiptið sem maðurinn er dæmdur fyrir morð en morðið sem hann var dæmdur fyrir í Grikklandi árið 2001 hefur ekki áhrif á refsingu hans nú. Auk þess sem maðurinn var dæmdur í fangelsi verður honum vísað úr landi og má ekki koma aftur til Svíþjóðar.

Konan var flutt á sjúkrahús eftir að stjúpfaðir hennar hafði lamið hana í höfuðið með öxi. Hún lést af sárum sínum nokkrum dögum síðar að því er fram kemur í frétt SVT.

Maðurinn viðurkenndi fyrir dómi að hafa orðið valdur að dauða stjúpdóttur sinnar með því að veitast að henni. Verjandi mannsins sagði að skjólstæðingur sinn hefði verið að verja sig og að það hefði ekki verið ásetningur hans að myrða stjúpdóttur sína. Saksóknarinn í málinu var á öndverðum meiði og krafðist lífstíðarfangelsis yfir manninum og brottvísun úr landi.

Að mati dómsins var það ekki trúverðugt að manninum hafi stafað ógn af stjúpdóttur sinni. Þá taldi dómurinn brot mannsins framið af ásetningi þar sem hann hefði lamið hana nokkrum sinnum í höfuðið með öxinni og haldið því áfram þar til konan féll í gólfið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×