Tilkynnt var um slysið á tólfta tímanum í morgun og strax var ljóst að um mjög alvarlegt slys væri að ræða. Slysið varð á Þjóðvegi 1 um Eldhraun, skammt frá Kirkjubæjarklaustri. Ökumaður fólksbíls, ferðamaður frá Litháen, var að beygja inn á útsýnisstað vestan Hunkubakka þegar rúta, með 44 kínverska ferðamenn innanborðs, lenti aftan á bifreiðinni og síðan norður fyrir veg og valt þar á hliðina.
Kínversk kona á þrítugsaldri lést í slysinu og voru tólf fluttir með þyrlum af vettvangi alvarlega slasaðir. Íslenskur bílstjóri rútunnar er á meðal hinna slösuðu.
Lokað var fyrir umferð um þjóðveginn við slysstað í dag en mikið hreinsunarstarf var unnið á vettvangi.