Innlent

Ekki nægileg þjónusta á veginum að mati sveitarstjóra

Þórdís Valsdóttir skrifar
Mynd frá vettvangi slyssins í dag.
Mynd frá vettvangi slyssins í dag. Vísir/vilhelm
Mikil hálka er á Suðurlandsvegi þar sem rútubifreið ók aftan á fólksbíl í morgun. Sandra Brá Jóhannsdóttir sveitarstjóri Skaftárhrepps segir að umferðin á svæðinu sé orðin svo mikil að það sé furða að vegurinn austan Víkur sé í lægri þjónustuflokki en vegurinn vestan víkur.

„Á þessum stað er vegurinn mjór, það eru engir veggkantar til þess að geta brugðist við neinu. Þú átt engan séns þegar þú ert kominn út í kant og það er ekkert sem tekur við þér, engar vegaxlir,“ segir Sandra Brá um staðinn þar sem slysið átti sér stað. Slysið varð við áningarstað Vegagerðarinnar við Eldhraun.

G. Pétur Matthíasson upplýsingafulltrúi Vegagerðarinnar staðfesti í samtali við RÚV að hálkuvarnir séu minni á veginum austan Víkur því sá vegakafli er í lægri þjónustuflokki og því sé vetrarþjónustan ekki sú sama.

„Ég er ekki að segja að þetta sé Vegagerðinni að kenna, heldur bara að það hjálpar ekki að vegirnir séu ekki þjónustaðir almennilega þegar umferðinh er svona gríðarlega mikil. En ég varpa engri sök, þetta er auðvitað bara slys sem gerist,“ segir Sandra Brá.

Pétur segir þó að það sé til skoðunar að hækka veginn um þjónustuflokk en að það sé háð auknum fjárveitingum frá ríkinu.

„Þetta er komið svo langt umfram þá umferð sem miðað er við í þessum þjónustuflokki, það á að vera löngu komið fjármagn í það. Það er langt síðan umferðin fór yfir þessa mælikvarða,“ segir Sandra Brá.


Tengdar fréttir

Rúta frá rútufyrirtækinu á leið á slysstað

Rúta ásamt þremur starfsmönnum frá Hópferðabílum Akureyrar hefur verið send á slysstað á Suðurlandsvegi en ein rúta fyrirtæksins lenti í umferðarslysi á veginum sex kílómetra vestan við Kirkjubæjarklaustur laust eftir klukkan ellefu í dag. Einn er látinn og sjö eru alvarlega slasaðir eftir slysið.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.