Erlent

Tala látinna hækkar eftir skjálftann í Mexíkó

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Jarðskjálftinn er sá öflugasti í Mexíkó í hálfa öld.
Jarðskjálftinn er sá öflugasti í Mexíkó í hálfa öld. vísir/getty
Að minnsta kosti 58 eru látnir eftir skjálftann sem skók Mexíkó í gær rétt fyrir miðnætti að staðartíma, í morgun að íslenskum tíma.

Jarðskjálftinn er sá öflugasti í landinu í heila öld en hann var 8,1 að stærð og átti upptök sín 165 kílómetra vestur af fylkinu Chiapas. Íbúðahús eyðilögðust, spítalar og opinberar byggingar skemmdust og fjöldi fólks hefur þurft að yfirgefa heimili sín.

Allir þeir sem hafa fundist látnir voru í ríkjunum þremur í kringum upptökin. 45 eru látnir í Oaxaca, tíu í Chiapas og þrír í Tabasco, þar af tvö börn. Reyndar hefur fylkisstjórinn í Chiapas, Manuel Velasco, sagt að tólf manns hafi látist þar sem myndi hækka tölu látinna upp í 60 manns. Óttast er að tala látinna eigi enn eftir að hækka.

Að minnsta kosti ein milljón manna var án rafmagns strax eftir skjálftann en yfirvöld hafa í dag náð að koma rafmagni aftur hjá að minnsta kosti 800 þúsund íbúum. Enrique Peña Nieto, forseti Mexíkó, hefur hvatt fólk til að vera á varðbergi og til að kanna gasbirgðir og veggi og súlur húsa sinna.

Um tuttugu eftirskjálftar sem voru yfir fjórir að stærð mældust á fyrstu fimm klukkutímunum eftir þann stóra og varaði Nieto íbúa landsins við því að eftirskjálfti upp á allt að 7,2 gæti orðið.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×