„Úrslitin endurspegluðu frammistöðuna. Þetta var hrikalegt, við urðum undir á öllum sviðum og þegar litið er til baka gerðum við þeim auðvelt fyrir,“ sagði Wenger niðurlútur að leikslokum.
Undarlegt liðsval
Wenger styrkti liðið á báðum endum vallarins í sumar, fékk til sín öflugan bakvörð ásamt heitasta framherja frönsku deildarinnar undanfarin ár í Alexandre Lacazette. Var þeim ætlað að skjóta liðinu aftur inn í Meistaradeildina og aftur í baráttu um toppsæti.
Þeir tóku sér hins vegar báðir sæti á bekknum í gær þrátt fyrir fínar frammistöður fyrstu vikurnar. Þess í stað kallaði hann á gamalkunnug nöfn, Alexis Sanchez lék fyrsta leik sinn á tímabilinu og virtist ekki í stakk búinn til að koma inn og gera útslagið í stórleik sem þessum.
„Ég er vonsvikinn yfir því hvernig strákarnir spiluðu þennan leik en það þýðir ekki að gleyma sér í svekkelsinu. Við höfum yfirleitt leikið vel í stórleikjum eins og þessum og núna munum við nýta fríið á meðan landsleikjahléið er til þess að finna út hvað það var sem fór svona úrskeiðis.“
Framundan er tæplega tveggja vikna frí áður en liðið mætir stigalausum Bournemouth-mönnum á heimavelli þar sem Skytturnar ættu ef allt er eðlilegt að komast aftur á sigurbraut. Það eru hinsvegar stór spurningarmerki þegar litið er yfir leikmannahóp liðsins.
Þegar stutt er eftir af félagsskiptaglugganum er ljóst að styrkja þarf leikmannahópinn á fleiri stöðum ef Arsenal ætlar að gera atlögu að toppnum á nýjan leik miðað við spilamennsku keppinautanna undanfarnar vikur. Wenger og stjórn Arsenal verða þar að auki að finna lausn á framhaldinu hjá eigin leikmönnum, lykilpóstar á borð við Alexis Sanchez og Mesut Özil ásamt Alex Oxlade-Chamberlain og Shkodran Mustafi eru allir þrálátlega orðaðir við önnur félög þessa dagana.

Þrátt fyrir það er Wenger brattur þegar litið er á framhaldið. „ Sjálfstraustið minnkar þegar þú tapar leikjum eins og þessum en við verðum að halda trúnni og einbeitingunni. Eina leiðin okkar til að svara er að mæta í næsta leik og svara fyrir þetta.“
Wenger í sviðsljósinu
Wenger sem var dýrkaður og dáður fyrstu árin af stuðningsmönnum Arsenal er enn og aftur kominn í sviðsljósið í upphafi ársins.
Tveggja ára framlengingin á samningi hans síðasta sumar vakti misjafna lukku hjá stuðningsmönnum liðsins og mun frammistaða eins og í gær ekki vinna marga á sitt band og setur bara meiri pressu á hann. „Það kenna eflaust margir stuðningsmenn mér um vandamál liðsins og ef ég er vandamálið þykir mér það leitt en við viljum stuðningsmenn sem styðja okkur í gegnum súrt og sætt,“ sagði Wenger.