Umfjöllun, viðtöl og einkunnir: Grindavík - KA | Grindvíkingar á toppinn eftir sigur á KA

Smári Jökull Jónsson. skrifar
vísir/andri marinó
Grindavík skaust á topp Pepsi-deildarinnar um stundarsakir að minnsta kosti þegar liðið lagði KA í Pepsi-deild karla í knattspyrnu í dag. Andri Rúnar Bjarnason tryggði liðinu sigur með marki úr vítaspyrnu á 81.mínútu en markið var hans tíunda í deildinni í sumar.

Hallgrímur Mar Steingrímsson kom KA yfir á 19.mínútu með glæsilegu marki. Skömmu síðar fékk Andri Rúnar tækifæri til að jafna af vítapunktinum en skaut í stöng. Grindavík fékk fleiri færi til að jafna fyrir hlé en tókst ekki og staðan 1-0 KA í vil í leikhléi.

Í seinni hálfleik voru heimamenn svo miklu betri aðilinn. Þeir spiluðu mun betur og jöfnuðu sanngjarnt á 70.mínútu þegar Marínó Axel Helgason skoraði eftir gott samspil við Andra Rúnar.

Marínó náði svo í aðra vítaspyrnu heimamanna í leiknum á 81.mínútu. Andri Rúnar steig aftur á punktinn og skoraði af öryggi.

Markið reyndist vera sigurmarkið í dag og Grindvíkingar fögnuðu sætum sigri.

Af hverju vann Grindavík?

Eftir brösuga byrjun sýndu Grindvíkingar klærnar og unnu vel fyrir sigrinum í seinni hálfleik. Þeir spiluðu vel eftir hlé og einstaklingsframtak frá Marínó og Andra Rúnari kom þeim á bragðið. Þeir börðust gríðarlega í allan dag og unnu vel fyrir sigrinum í kvöld.

Það fjaraði undan KA-liðinu eftir því sem leið á leikinn og þeir voru ekkert sérlega nálægt því að jafna eftir að Grindvíkingar komust yfir. Það var eins og það vantaði aðeins meiri trú hjá KA-mönnum og virðist sem erfitt gengi undanfarið sé aðeins farið að hafa áhrif á sálartetur Norðanmanna.

Þessir stóðu upp úr:

Marínó Axel átti stórgóðan leik hjá Grindavík í dag og átti þátt í báðum mörkum liðsins. Hann barðist af krafti, hljóp eins og brjálæðingur og kom afar sterkur inn í byrjunarliðið. Þá sýndi Andri Rúnar gæðin sem hann býr yfir og hann er afar mikilvægur fyrir lið Grindavíkur.

Gunnar Þorsteinsson átti sömuleiðis góðan leik á miðju heimamanna og vörn liðsins stóð stig ágætlega og gat lítið gert í markinu sem Hallgrímur Mar skoraði.

Hjá KA var það helst Hallgrímur Mar sem átti lipra spretti en Alexander Trinicic var sömuleiðis nokkuð öflugur á miðjunni. Hann var reyndar heppinn að fjúka ekki útaf með rautt spjald í fyrri hálfleik eftir grófa tæklingu.

Hvað gekk illa?

KA gekk illa að skapa sér hættuleg færi og helst ógnuðu þeir með langskotum sem sköpuðu lítil sem engin vandræði fyrir heimamenn. KA-menn hlupu og börðust ágætlega en voru samt undir í þeirri baráttu og það vantar þennan neista sem var í liðinu fyrst í sumar.

Óli Stefán þjálfari Grindavíkur sagði eftir leik að það hefði gengið illa að halda uppi æfingum sökum meiðsla leikmanna. Þeir höfðu ekki úr miklu að moða á bekknum sem var að mestu skipaður ungum og óreyndum leikmönnum. Það kæmi ekki á óvart ef Grindvíkingar myndu styrkja hópinn í félagaskiptaglugganum.

Hvað gerist næst?

Grindavík heldur í Grafarvoginn í næstu umferð og mætir þar Fjölnismönnum. Spurningin er hvort Grindvíkingar geri það sem topplið eða hvort Valsmenn hirða toppsætið af þeim á ný núna í kvöld.

KA fær ÍBV í heimsókn Norður í mikilvægum leik og freista þess að vinna sinn fyrsta sigur í fimm leikjum. ÍBV fer uppfyrir KA með sigri í þeim leik og ljóst að hart verður barist í þessum landsbyggðarslag næstkomandi sunnudag.

Grindavík (3-4-3): Kristijan Jajalo 5 - Brynjar Ásgeir Guðmundsson 6, Matthías Örn Friðriksson 6, Jón Ingason 7 - Aron Freyr Róbertsson 6, Milos Zeravica 6, Gunnar Þorsteinsson 6, Marínó Axel Helgason 7 *(Maður leiksins) - William Daniels 5, Andri Rúnar Bjarnason 7, Alexander Veigar Þórarinsson 5.

KA (4-4-2): Srdjan Rajkovic 6 - Bjarki Þór Viðarsson 5 (´83 Daníel Hafsteinsson), Davíð Rúnar Bjarnason 5, Callum Williams 5, Darko Bulatovic 5 - Ásgeir Sigurgeirsson 4 (´76 Steinþór Freyr Þorsteinsson), Aleksandar Trinicic 5, Almarr Ormarsson 5, Hallgrímur Mar Steingrímsson 6 (´88 Hrannar Björn Steingrímsson) - Emil Lyng 5, Elfar Árni Aðalsteinsson 4. 

Óli Stefán Flóventsson, þjálfari Grindavíkur.vísir/ernir
Óli Stefán Flóventsson þjálfari Grindavíkur sagði í samtali við Vísi eftir sigurinn á KA í Pepsi-deildinni að liðið væri einu stigi frá markmiði sínu nú þegar tíu umferðir eru liðnar af Íslandsmótinu.

„Ég reyni, þó það sé erfitt eftir því sem við söfnum fleiri stigum, að horfa ekki í töfluna. Ég reyni að ýta því frá mér. Eina sem skiptir máli er að við erum stigi frá okkar fyrsta markmiði og við leggjum allt í það að klára það í fyrri umferðinni," sagði Óli Stefán þegar Vísir ræddi við hann að leik loknum í kvöld.

Grindvíkingar hafa átt í töluverðum vandræðum undanfarið vegna meiðsla leikmanna og áttu í erfiðleikum með að halda uppi almennilegum æfingum á þeim tíma sem liðinn er frá síðasta leik.

„Ég reiknaði með taktleysi hjá okkur fyrstu 20-25 mínúturnar. Það er eðlilegt því við náum ekki að púsla saman æfingum á þeim hóp sem við höfum haft undanfarið. Það sem tók við er eitthvað það besta sem þetta lið hefur sýnt undir minni stjórn. Ég er svo ánægður með strákana. Þarna kemur baráttan og ástríðan allt í gegn og við verðskuldum þennan sigur allan daginn,“ sagði hæstánægður þjálfari Grindvíkinga.

„Við erum ekki með stóran hóp en ótrúlega kröftugan. Andlega erum við svo sterkir og þetta kemur mér ekkert á óvart. Ég hlakkaði til að spila með þetta lið sem ég var með í dag og þeir skiluðu einni bestu frammistöðu undir minni stjórn,“ bætti Óli Stefán við.

Leikmenn Grindavíkur fögnuðu vel og lengi með stuðningsmönnum sínum eftir leik en Óli Stefán sagði menn alls ekki farna fram úr sér þrátt fyrir gott gengi.

„Það er ekki erfitt að láta strákana einbeita sér að okkar markmiði. Þetta er svo vel samanstilltur hópur þannig að það er ekkert vandamál,“ sagði Óli Stefán að lokum

Tufa: Ég hef ekki áhyggjur
Srdjan Tufegdzic, þjálfari KA.visir/stefán
Srdjan Tufegdzig þjálfari KA var vitaskuld ekki ánægður eftir tapið gegn Grindavík í dag. Tapið er það þriðja í röð hjá KA sem hafa misst flugið eftir góða byrjun í Pepsi-deildinni.

„Við byrjum leikinn mjög vel og fyrstu 20-25 mínúturnar fannst mér við spila nákvæmlega eins og við vildum og eins og við lögðum leikinn upp. Við skorum fínt mark og vorum hættulegir en það vantaði upp á ákvarðanatökur á síðasta þriðjungnum til að bæta við,“ sagði Tufa við Vísi eftir leik en gestirnir leiddu 1-0 í hálfleik eftir glæsilegt mark Hallgríms Mar Steingrímssonar.

 „Við töluðum vel saman í hálfleik um hvernig við ætluðum að leggja leikinn upp en við gerum tvö rosalega dýr mistök í fyrra markinu þeirra og síðan í vítinu. Það í raun skapar þennan sigur fyrir Grindavík.“

Grindvíkingar sýndu mikla baráttu í leiknum í dag og sigur þeirra í raun verðskuldaður. Fannst Tufa vanta upp á vilja og kraft hjá sínum mönnum?

„Nei, ég er ekki sammála því. Við vildum þetta mikið og vorum að tala um það í hálfleik að þetta verður aðalatriðið í dag, hverjir vilja þetta meira. Kannski voru þeir aðeins grimmari og nýttu vindinn betur. Svona er þetta,“ bætti Tufegdzig við.

KA hefur leikið fjóra leiki í deildinni án þess að vinna sigur og hafa tapað þremur þeim síðustu. Hafa Norðamenn áhyggjur af gengi liðsins?

„Ég hef ekki áhyggjur en þetta er mjög svekkjandi. Þetta er þriðja tapið í röð og að sjálfsögðu ekkert sem við erum að stefna á en það eina sem við getum gert er að fara á æfingasvæðið, gera aðeins betur og vinna næsta leik,“ sagði Srdjan Tufegdzig þjálfari KA að lokum.

Andri Rúnar: Ég var alltaf að fara að skora úr seinna vítinu
Andri Rúnar er markahæstur í Pepsi-deildinni með 10 mörk.Vísir/Andri Marínó
„Þetta var liðið okkar í hnotskurn. Við berjumst fyrir öllu og erum aldrei að fara að gefast upp. Við sýndum það í dag,“ sagði markahrókurinn Andri Rúnar Bjarnason í samtali við Vísi eftir sigur Grindavíkur á KA í Pepsi-deildinni í kvöld. Með sigrinum skjótast Grindvíkingar í toppsæti deildarinnar, að minnsta kosti um stundarsakir.

Andri Rúnar skoraði sigurmarkið í dag úr vítaspyrnu á 81.mínútu en hann hafði mistnotað víti í fyrri hálfleik þegar hann skaut í stöngina í stöðunni 1-0 fyrir KA. Hann var þó ekki lengi að dvelja við það klúður.

„Það var farið strax og efldi mig eiginlega meira. Ég var líka búinn að lofa Gumma og Arnari liðsstjórum að ég myndi skora í dag. Ég var alltaf að fara að skora í seinna vítinu,“ sagði Andri Rúnar.

Marínó Axel Helgason var frábær í liði heimamanna í dag og Andri Rúnar var ekki spar á hrósið eftir leik.

„Hann var geggjaður. Ég held þetta hafi verið fyrsti leikur í byrjunarliði í Pepsi-deildinni en það var eins og þetta væri sá fimmtugasti. Hann var geggjaður,“ sagði Andri Rúnar.

Grindvíkingar eru komnir á topp deildarinnar eftir sigurinn í dag og það er eitthvað sem fáir átti von á. Andri Rúnar viðurkenndi að það yrði gaman að skoða töfluna þegar hann kæmi heim.

„Að sjálfsögðu, það sýnir hvað við höfum verið góðir í sumar. En eins og Óli sagði þá er fyrsta markmiðið að klára þennan stigafjölda sem við ákváðum fyrir mót og það er alveg að koma að því. Þá förum við að ákveða næsta markmið,“ sagði Andri Rúnar Bjarnason að lokum en hann er markahæstur í Pepsi-deildinni með 10 mörk eftir tíu umferðir.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira