Erlent

„Dómadagsþvæla“ að Bretar hafi njósnað um Trump

Kjartan Kjartansson skrifar
Donald Trump Bandaríkjaforseti varpaði ábyrgð á fullyrðingum um að Bretar hafi njósnað um hann yfir á Fox News.
Donald Trump Bandaríkjaforseti varpaði ábyrgð á fullyrðingum um að Bretar hafi njósnað um hann yfir á Fox News. Vísir/EPA
Fullyrðingar talsmanna Hvíta hússins um að breska leyniþjónustan hafi njósnað um Donald Trump í kosningabaráttu hans eru „dómadagsþvæla“ að sögn varaforstjóra bandarísku Þjóðaröryggisstofnunarinnar (NSA).

Trump olli fjaðrafoki þegar hann fullyrti án frekari rökstuðnings að Barack Obama, forveri hans í embætti forseta, hefði látið njósna um sig í kosningabaráttunni fyrir forsetakosningarnar í haust. Sean Spicer, fjölmiðlafulltrúi hans, bætti um betur á fimmtudag þegar hann vitnaði í umfjöllun fjölmiðla um að breska leyniþjónustan GCHQ hefði staðið að njósnunum.

Richard Ledgett, varaforstjóri NSA, segir hins vegar þá hugmynd að Bretar hafi njósnað um Trump „einfaldlega ruglaða“ í viðtali við breska ríkisútvarpið BBC í dag. Bresk stjórnvöld hefðu engan ávinning af slíkum njósnum.

„Þetta sýnir fram á algeran vanskilning á því hvernig samband leyniþjónustustofnana virkar, það hunsar algerlega pólitískan raunveruleika þess „hvers vegna ætti ríkisstjórn Bretlands að samþykkja að gera þetta?“,“ sagði Ledgett í viðtalinu sem lætur bráðlega af störfum hjá NSA.

Spicer vitnaði í fréttaskýranda Fox News á fimmtudag en sá hélt því fram að breska leyniþjónustan hefði hjálpað Obama að njósna um Trump, að því er rakið er í frétt Reuters.

„Auðvitað myndu þeir ekki gera það. Það væri ævintýralega heimskulegt,“ sagði Ledgett ennfremur.

Varpaði ábyrgðinni yfir á Fox News

Þessar fullyrðingar hafa vakið litla hrifningu hjá breskum yfirvöldum. GCHQ sendi frá sér harðorða yfirlýsingu þar sem stofnunin lýstu þeim sem „algerlega fáránlegum“.

Á blaðamannafundi eftir fund Trump og Angelu Merkel, kanslara Þýskalands, í gær varpaði Trump ábyrgðinni á fullyrðingunni um aðkomu bresku leyniþjónustunnar yfir á Fox News, að því er kemur fram í frétt Vox.

„Við sögðum ekkert. Eina sem við gerðum var að vitna í í ákveðinn mjög hæfileikaríkan lögspeking sem var sá sem var ábyrgur fyrir að segja þetta í sjónvarpi. Ég lýsti ekki skoðun á því,“ sagði Trump við þýskan blaðamann sem spurði hann út í málið.

„Þú ættir ekki að vera að tala við mig. Þú ættir að vera að tala við Fox News,“ bætti Trump við.


Tengdar fréttir

FBI hafnar ásökunum Trump um hleranir

Yfirmaður bandarísku alríkislögreglunnar hafnar ásökunum Donalds Trump Bandaríkjaforseta að Barack Obama, forveri hans í starfi, hafi fyrirskipað að símar Trump skyldu hleraðir.

Donald Trump sakar Obama um að hafa látið hlera sig

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, hefur sakað forvera sinn í embætti, Barack Obama, um að hafa látið hlerað sig. Hann segir Obama hafa hlerað Trump turninn í New York fyrir kosningarnar á síðasta ári.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×