Innlent

350 starfsmenn IKEA fá þrettánda mánuðinn greiddan

Erla Björg Gunnarsdóttir skrifar
Rekstur IKEA hefur gengið vel undanfarin misseri sem hefur meðal annars skilað sér í lægra vöruverði. En nú ætlar fyrirtækið að gera vel við starfsfólkið og borga þeim bónus í formi þrettánda mánaðarins.

„Við erum að uppskera og þar af leiðandi ætlum við að umbuna starfsfólki okkar á næsta ári, eftir þetta rekstrarár IKEA sem lýkur í lok ágúst á næsta ári,” segir Fjóla Kristín Helgadóttir, mannauðsstjóri IKEA. „Þá munum við greiða öllum starfsmönnum þrettánda mánuðinn. Það er mjög ánægjulegt, þá fá þau líka að njóta góðs af velgengninni.” 

Fjóla Kristín, mannauðsstjóri IKEA.vísir/skjáskot
Þrjú hundruð og fimmtíu manns vinna hjá IKEA og verður kostnaðurinn því um níutíu milljónir. Starfshópurinn er á öllum aldri og með mismikla reynslu og menntun. Mikið er af ungu fólki og námsmönnum og sjötíu útlendingar vinna hjá fyrirtækinu. Þetta er fólk sem er ekki beinlínis vant því að fá háa bónusa í starfi sínu og hafa viðbrögðin verið að vonum góð. 

„Þau eru aðeins að melta þetta og eru svolítið hissa. En jú, það er mjög mikil ánægja. Það er ekki hægt annað,“ segir Fjóla. 

Þeir sem hafa unnið í heilt ár í ágúst á næsta ári munu fá fullan bónus og þeir sem hafa unnið í hálft ár fá helminginn. 

Gerirðu ráð fyrir mörgum starfsumsóknum á næstunni? „Já ég geri ráð fyrir því ef þetta fer að spyrjast svona hratt út. Við vorum að tilkynna þetta fyrst í gær þannig að jú, örugglega.”


Tengdar fréttir

Sextíu prósent veltuaukning á árinu

Reykjavík Letterpress er eina hönnunarstofan á Íslandi sem gerir út á letterpress eða hæðarprentun. Framundan hjá fyrirtækinu er innkoma fjárfesta, flutningar og sala á erlendum markaði.
Fleiri fréttir

Sjá meira


×

Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.