Viðskipti innlent

Sextíu prósent veltuaukning á árinu

Sæunn Gísladóttir skrifar
Ólöf Birna Garðarsdóttir og Hildur Sigurðardóttir, eigendur Reykjavík Letterpress, eru báðar grafískir hönnuðir og unnu áður saman á auglýsingastofu.
Ólöf Birna Garðarsdóttir og Hildur Sigurðardóttir, eigendur Reykjavík Letterpress, eru báðar grafískir hönnuðir og unnu áður saman á auglýsingastofu. Vísir/Ernir
Hönnunarstofan Reykjavík Letterpress fagnar sínu sjötta starfsári í september og var í síðasta mánuði valin ein af tíu bestu letterpress-prentstofum í heimi af hinu virta tímariti Print Magazine. Eftir fimm ára starf glímdi fyrirtækið við nokkurs konar vaxtarverki og fóru stofnendur þess, Ólöf Birna Garðarsdóttir og Hildur Sigurðardóttir, í kjölfarið í mikla naflaskoðun. Þær áttuðu sig á því að þær þyrftu að stækka við sig og fá utanaðkomandi fjárfesta til liðs við sig svo fyrirtækið næði að vaxa og dafna. Í ár er fyrirtækið í sókn og hefur veltan aukist um sextíu prósent á fyrstu sex mánuðum ársins samanborið við síðasta ár. Að auki stefna Ólöf og Hildur nú á erlendan markað á næsta ári.

Einu sem gera út á hæðarprentun

Reykjavík Letterpress er eina hönnunarstofan á Íslandi sem gerir út á letterpress sem byggist á aldagamalli aðferð og heitir á íslensku hæðar­prentun. Aðferðin er frábrugðin hefðbundinni offsetprentun með sýnilegri og áþreifanlegri áferð. Notuð er Heidelberg-prentvél og eru helstu verkefnin sérverkefni fyrir einstaklinga og fyrirtæki eins og nafnspjöld, boðskort í hvers konar viðburði og kynningarefni fyrir vöru eða þjónustu. Mörg þessara verkefna koma í gegnum auglýsingastofur og viðburðafyrirtæki. Einnig framleiðir Reykjavík Letterpress sína eigin vörulínu sem saman­stendur meðal annars af tækifæriskortum, hengimiðum, servíettum, glasamottum og minnis­bókum og eru vörurnar seldar í um þrjátíu verslunum á landinu.

Ólöf og Hildur eru báðar grafískir hönnuðir og unnu áður saman á auglýsingastofu. Hugmyndin að fyrirtækinu kviknaði í ársbyrjun 2010 og níu mánuðum seinna voru Ólöf og Hildur búnar að festa kaup á vélum og koma sér fyrir á Lindargötu. Þær eru enn þá í því rými sem er um hundrað fermetrar að stærð, en stefna að flutningum út á Granda í næsta mánuði í tæplega þrjú hundruð fermetra húsnæði.

Hæðarprentun í lægð á Íslandi

„Þegar við fórum af stað var þessi tegund prentunar búin að vera í ákveðinni lægð á Íslandi. Það var orðið mjög erfitt sem hönnuður að fara inn í prentsmiðju og óska til dæmis eftir hæðarprentuðu nafnspjaldi þar sem áherslurnar eru aðrar hjá stærri prentsmiðjunum,“ segir Ólöf. „Við vissum því ekki hvernig okkur yrði tekið, hvort prentsmiðjurnar vildu sjálfar nýta sér þetta tækifæri en raunin hefur verið sú að okkur hefur verið sýnd mikil velvild og það er ósjaldan sem fólki er vísað til okkar af stóru prentsmiðjunum.“

„Þegar við vorum búnar að ráðfæra okkur við ýmsa og fara í eins konar rannsóknarferð, meðal annars til New York, vorið 2010 áttuðum við okkur á því hvernig tæki og tól við þyrftum til þess að geta hafist handa. Við fundum auglýsta á netinu litla prentsmiðju til sölu og var hún í eigu Páls Bjarnasonar. Hann var búinn að starfa í bílskúrnum sínum í Kópavogi í áratugi og var orðinn 84 ára. Þar sem við byrjuðum með tvær hendur tómar vildum við bara kaupa eina vél frá honum en hann var alveg ákveðinn og vildi bara selja okkur allt eða ekkert, sem var frábært,“ segir Ólöf.

„Við fórum í heimsókn til hans og féllum alveg fyrir honum og öllum græjunum sem hann átti. Við vorum mjög heppnar svona eftir á að hyggja að fá þetta allt á sama stað,“ segir Hildur. „Við vorum svo fram í nóvember eins og gráir kettir í bílskúrnum hjá Páli. Hann kenndi okkur grunninn og hjálpaði okkur að vinna fyrstu verkefnin okkar.“ Fyrsta verkefni tvíeykisins var boðskortið í brúðkaupið hennar Hildar. „Það var æðislegt prufuverkefni,“ segir Ólöf og hlær.

Fimm starfsmenn eru nú hjá Reykjavík Letterpress, en í upphafi voru einungis eigendurnir.Vísir/Ernir
Gat á markaðnum

„Þegar við vorum nýfluttar á Lindargötuna fengum við símtal frá einni af stóru auglýsingastofunum sem bað um að fá að koma í heimsókn og þannig fundum við fyrir því strax að fólk var spennt að sjá hvað við vorum að gera. Í framhaldinu fylgdu svo fleiri auglýsingastofur og hönnuðir og það var greinilega gat á markaðnum og áhugi fyrir prentaðferð af þessu tagi,“ segir Hildur.

Þær Ólöf taka báðar fram að samvinna við aðrar prentsmiðjur hér á landi og við auglýsingastofur hafi verið gríðarlega góð. „Við vinnum vel með þessum fyrirtækjum og erum ekki þannig séð í beinni samkeppni. Við finnum fyrir því að fólk samgleðst með okkur og að við erum öll í sama liði,“ segir Hildur.

„Við fengum mjög góða aðstoð frá lykilmönnum í prentiðnaðinum þegar við byrjuðum, m.a. frá Gunnari Eggerts. Þeir fluttu inn fyrir okkur rándýran pappírslager og geyma fyrir okkur og það er ómetanlegt. Einnig voru okkur innan handar aðilar eins og Guðjón Ó, Kjartan í Miðaprenti og Sófus sem stýrir prentdeildinni í Tækniskólanum. Þessir aðilar áttu stóran þátt í því að við fórum vel af stað,“ segir Ólöf.

Úr tveimur í fimm starfsmenn

Fyrstu tvö árin voru þær einar á stofunni og einbeittu sér að því að læra prentaðferðina almennilega. Frá árinu 2012 hefur hins vegar prentari unnið hjá fyrirtækinu og eru þær Hildur og Ólöf lítið að prenta sjálfar í dag. „Guðmundur Helgi Helgason hóf störf haustið 2012, en hann hafði lært þessa aðferð á sínum tíma. Hans þekking færði okkur upp á annað plan,“ segir Hildur. Þær hafa á síðustu árum bætt við tveimur starfsmönnum, sölumanni og prentnema. „Við erum svo búnar að kaupa aðra vél og við erum virkilega að gæta þess að þekkingin glatist ekki og að framboð okkar vaxi,“ segir Hildur.

40 til 50 prósent veltuaukning

Á stuttum tíma óx fyrirtækið mjög hratt. Það tók fyrstu þrjú til fjögur árin að koma út á núlli, en veltan jókst alltaf árlega um fjörutíu til fimmtíu prósent fyrstu fjögur árin. Rekstrarform fyrirtækisins er margþætt; prentþjónusta, vöruhönnun og framleiðsla og grafísk hönnun. „Við vorum að fylgjast með öðrum nýsköpunarfyrirtækjum sem voru með skýrari starfsemi og fóru öðruvísi af stað og flugu áfram. Um leið og það hefur stundum reynst snúið að vera með marga bolta á lofti höfum við á sama tíma verið sannfærðar um að til lengri tíma litið verði það styrkur fyrir okkur,“ segir Ólöf.

„Árið 2015 stóð veltan hins vegar í stað,“ segir Ólöf. „Það má segja að árið 2015 hafi farið í dálítið stífa naflaskoðun. Við vorum búnar að hlaupa rosalega hratt fyrstu árin okkar og vorum orðnar þreyttar. Eðlilega höfðum við þurft að halda niðri öllum kostnaði, og vorum orðnar þyrstar í að sjá meiri ávöxt af því sem við vorum búnar að hamast við að leggja á okkur. Þessi óþreyja vakti okkur til umhugsunar um hversu mikla trú við höfðum í raun á fyrirtækinu og eins og flest nýsköpunarfyrirtæki standa frammi fyrir þá þarf að staldra við og grandskoða hvernig á að komast í næstu tröppu,“ segir Ólöf.



Reykjavík Letterpress selur meðal annars tækifæriskort og merkimiða.Vísir/Ernir
Fókus á innviði í fyrra

Þær Hildur leituðu þá ráða hjá ýmsum reynsluboltum í rekstri í byrjun síðasta árs og upp frá því fóru þær að vinna að lausnum og nýjum leiðum. „Fókusinn fór því mikið í innviði rekstursins í fyrra,“ segir Hildur.

„Við fórum að skoða hvernig við myndum byggja upp hvert svið fyrir sig og áttuðum okkur á því að við þyrftum rýmra húsnæði til að ráða við þessa stækkun og þróunarvinnu sem við sáum fyrir okkur,“ segir Ólöf.

Viðræður við fjárfesta

Þær áttuðu sig einnig á því að þær þyrftu ytra fjármagn til að vaxa og eru nú í viðræðum við fjárfesta varðandi möguleika á hlutafjáraukningu í fyrirtækinu.

Það sem af er ári hefur reksturinn gengið mjög vel. „Ef við berum saman fyrsta hálfa árið núna og fyrsta hálfa árið í fyrra erum við komin á mjög góðan skrið og erum með sextíu prósent meiri veltu,“ segir Hildur.

Hingað til hefur hönnunarstofan einungis verið að selja vörur hér á landi. „En nú erum við að skoða útlönd og höfum gert markaðsáætlun með það í huga. Stefnan er sett á skandinavískan markað á næsta ári, segir Hildur.

Í síðasta mánuði var Reykjavík Letterpress valin ein af tíu bestu hæðarprentstofum í heimi af hinu virta tímariti Print Magazine. Hildur segir það skipta miklu máli þegar horft er til erlendra markaða. „Þetta var skemmtileg og óvænt ánægja og mikill heiður að fá þessa viðurkenningu,“ segir Hildur.

Vinna fyrir IKEA

Frá árinu 2014 hafa Hildur og Ólöf unnið ýmis verkefni fyrir IKEA. „Þetta er allt hönnunarvinna en ekki frágangur og prentun og allt vörur sem fara í verslanir IKEA á heimsvísu. Fyrsta verkefnið hjá IKEA var lítil lína sem kom út vorið 2015. Við hönnuðum límmiða, miða og pappír fyrir línu sem snerist um að varðveita mat í fallegum ílátum. Línan var framleidd í takmörkuðu magni og seld í sex til átta vikur,“ segir Hildur.

Sjá einnig: Hönnun Reykjavík Letterpress hjá IKEA

„Síðan þá höfum við fengið nokkur minni verkefni og eitt stórt sem kemur í apríl á næsta ári og er ekki með takmarkaðan sölutíma. Við erum svo með áframhaldandi samning sem hönnuðir, þannig að ef vörustjóra, sem eru að vinna ákveðnar línur fyrir haustið 2018, vantar til dæmis mynstur eða grafíska lausn fyrir tiltekna línu þá erum við á lista sem grafískir hönnuðir og getum leyst svoleiðis hluti.“

Þær eru sammála um að það hafi verið skemmtileg reynsla að vinna fyrir IKEA og því hafa fylgt alls konar ferðalög og fóru þær til að mynda í sérstaka ferð til pappírsframleiðanda í Wales til að velja efni fyrir hönnun sína. Einnig hafa svokallaðir hönnunarhittingar í höfuðstöðvum IKEA farið fram með reglulegu millibili og þar hafa þær hitt hönnuði alls staðar að úr heiminum. „Þessi IKEA-verkefni hafa verið óvænt hliðarspor í okkar rekstri og óhætt að segja að þau hafa verið hrikalega gefandi og skemmtileg,“ segir Ólöf.

Selja í 30 búðum

Vörulína Reykjavík Letterpress er í dag seld í þrjátíu búðum á Íslandi og stefna þær Ólöf og Hildur á fleiri verslanir. „Við seljum mikið í hönnunarbúðum og verslunum þar sem ferðamenn eru á vappi en erum líka að færa okkur í hverfistengdar blómabúðir til að auðveldara sé fyrir fólk að nálgast vörurnar okkar,“ segir Ólöf. Á næstu misserum ætla þær að bæta verulega við úrvalið. „Okkur langar meðal annars að fjölga tegundum minnisbóka ásamt því að bæta ýmsu í flóruna og koma með nýjar línur reglulega. Við munum ef til vill skipta örar út, meðfram klassískum vörum sem eru komnar til að vera,“ segir Hildur. „Einnig höfum við selt fjöldann allan af póstkortum til ferðamanna og ætlum að bæta við þá línu á næstu misserum.“

„Svo höfum við í hyggju að framleiða gjafapappír í stíl við línurnar, og hann yrði þá prentaður annars staðar,“ segir Ólöf. „Við sjáum líka fram á að framleiða vörur sem eru hönnunarlega partur af heildarlínunni en verða ekki endilega hæðarprentaðar.“

Nýtt húsnæði á Granda

„Eins og staðan er núna eru starfsmenn fyrirtækisins fimm og til að byrja með bætast í hópinn sjálfstætt starfandi hönnuðir sem munu leigja hjá okkur stóla og við kaupum svo af þeim vinnu eftir þörfum,“ segir Hildur.

„Nýja húsnæðið úti á Granda er þeim kostum gætt að það er með þenslumöguleika. Við erum að stækka mjög mikið og förum nú úr hundrað fermetrum í tæplega þrjú hundruð. Með þessu erum við að búa til vinnustað þar sem verður fleira fólk, meira flæði og meira líf,“ segir Ólöf.

Ólöf og Hildur líta björtum augum til framtíðar. „Það eru enn þá margir tæknilegir möguleikar eftir sem okkur langar að geta boðið upp á í prentlausnum og vörulínan okkar er í stöðugri þróun. Tækifærin eru endalaus, það er nóg eftir og við erum rétt að byrja,“ segir Hildur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×