Enski boltinn

Einkaviðtal við Gylfa Þór: Væri til í að það væri ekki alltaf verið að skipta um þjálfara

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Gylfi Þór Sigurðsson, landsliðsmaður Íslands í fótbolta, viðurkennir að hann væri til í að sjá minna rót á þjálfaramálum velska liðsins Swansea sem hann spilar með í ensku úrvalsdeildinni.

Swansea fékk Bandaríkjamanninn Bob Bradley til starfa þegar tímabilið var hafið en hann er fjórði þjálfarinn sem Gylfi spilar fyrir hjá Swansea síðan hann kom aftur til félagsins fyrir þremur árum síðan.

„Það er frekar mikið að vera með fjóra þjálfara á þremur árum. Þetta truflar mig samt ekkert, ég er alltaf með sömu markmið. Ég reyni bara að skora eða leggja upp í hverjum leik,“ segir Gylfi Þór í einkaviðtali við Guðmund Benediktsson í Messunni en viðtalið var sýnt í þætti gærkvöldsins á Stöð 2 Sport HD.

„Auðvitað vildi maður sjá meiri stöðugleika hjá liðinu og það væri ekki verið að breyta um þjálfara eins hratt og það er verið að gera núna. Núverandi þjálfari fær tíma til að snúa þessu við og ég held að liðið þurfi ekki mikið meira en einn til tvo sigra og þá þurfa hjólin að snúast,“ segir Gylfi Þór Sigurðsson.

Arnar Gunnlaugsson, sérfræðingur Messunnar, vill meina að íslenski miðjumaðurinn sé langbesti leikmaður Swansea-liðsins, eins og fleiri, og sama þó hann eigi ekki góðan dag er hann betri en flestir.

„Auðvitað var þetta ekki hans besti leikur [gegn Middlesbrough] en Guð minn góður hvað hann var að reyna. Hann var að hlaupa út um allan völl og langaði að taka hornspyrnur og aukaspyrnur og allan pakkann. Hann sýndi karakter og vilja,“ segir Arnar.

„Það eru leikmenn þarna sem eru búnir að evra lélegir. Ki er búinn að vera slakur en vanalega er hann góður. Hvað er Routhledge búinn að gera? Ekki rassgat. Llorente fór á skrið fyrir nokkrum leikjum og gerði þá fjögur mörk í tveimur leikjum en svo slökknaði á honum aftur,“ segir Arnar Gunnlaugsson.

Allt viðtalið við Gylfa og umræðuna um hann má sjá í spilaranum hér að ofan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×