Ísraelsk yfirvöld halda því fram að þau hafi undir höndunum gögn sem sýna fram á að ríkisstjórn Baracks Obama hafi sjálf staðið að baki ályktun Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna þar sem uppbygging landnemabyggða Ísraela var gagnrýnd.
Þá hóta þeir því jafnframt að láta Donald Trump, verðandi forseta Bandaríkjanna fá þau gögn. Guardian greinir frá.
Ásakanirnar komu fram í máli talsmanns Ísraelsku ríkisstjórnarinnar, David Keyes. „Við höfum áreiðanlegar upplýsingar frá heimildarmönnum okkar innan Arabíulandanna og á alþjóðavettvangi að þessi ályktun hafi í raun verið sett fram af Bandaríkjunum.“
Einungis örfáum klukkustundum eftir að Keyes hafði látið þessi ummæli falla sagði sendiherra Ísraela í Bandaríkjunum – Ron Dermer að gögnin sem um ræðir yrðu send til ríkisstjórnar Trump. „Við munum senda þessar sannanir til nýrrar ríkisstjórnar Bandaríkjanna eftir venjulegum boðleiðum. Ef hún vill deila því með þjóðinni, þá er það þeim velkomið“ sagði Dermer í viðtali við CNN.
Sjá einnig: Ísraelska stjórnarandstaðan gagnrýnir Netanyahu
Bandarískir ráðamenn hafa harðneitað ásökunum Ísraela. „Við áttum ekki þátt í því að leggja fram þessa tillögu. Við tókum ákvörðun um afstöðu okkar til ályktunarinnar þegar greidd voru atkvæði um hana“ sagði Ben Rhodes, upplýsingafulltrúi ríkisstjórnar Obama í öryggismálum.

