Erlent

Fyrsta bílalestin lögð af stað frá Aleppo

Atli Ísleifsson skrifar
Hjálparsamtökin Rauði krossinn og Rauði hálfmáninn höfðu áður greint frá því að þau hefðu sjúkrabíla og um hundrað sjálfboðaliða sem reiðubúnir væru að taka þátt í brottflutningnum.
Hjálparsamtökin Rauði krossinn og Rauði hálfmáninn höfðu áður greint frá því að þau hefðu sjúkrabíla og um hundrað sjálfboðaliða sem reiðubúnir væru að taka þátt í brottflutningnum. Vísir/AFP
Fyrsta bílalestin frá Aleppo með særða borgara og uppreisnarmenn er lögð af stað eftir sólarhrings seinkun.

Samkomulag á milli stríðandi fylkinga í borginni gerir ráð fyrir að hægt verði að flytja þúsundir manna frá austurhluta borgarinnar sem er svo gott sem fallinn í hendur stjórnarhersins eftir margra ára átök.

Um tvö hundruð manns eru sagðir vera í fyrsta hópnum sem fær að fara frá hverfinu og verður farið með fólkið yfir á svæði vestan borgarinnar sem er undir stjórn uppreisnarmanna.

Fréttir hafa borist af því að skotið var á fyrsta sjúkrabílinn sem ekið var út úr austurhlutanum. Þrír særðust í árásinni.

Hjálparsamtökin Rauði krossinn og Rauði hálfmáninn höfðu áður greint frá því að þau hefðu sjúkrabíla og um hundrað sjálfboðaliða sem reiðubúnir væru að taka þátt í brottflutningnum.

Rússneskir fjölmiðlar greindu svo frá því í morgun að að rússneskir hermenn myndu aðstoða við flutningana.

Talsmaður rússneska varnarmálaráðuneytisins segir að Sýrlandsstjórn hafi heitið Rússum að uppreisnarmenn í austurhlutanum og fjölskyldur þeirra fái að flýja óáreittir til borgarinnar Idlib, suðvestur af Aleppo, sem er undir stjórn uppreisnarmanna.


Tengdar fréttir

Uppreisnarmenn segja vopnahléi náð í Aleppo

Uppreisnarmenn í austurhluta Aleppo segja að vopnahléi hafi nú verið náð og að byrjað að verði að rýma þau svæði þar sem almennir borgarar eru innlyksa snemma á fimmtudagsmorgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×