Erlent

Rússar slíta sig frá Alþjóðlega glæpadómstólnum

Samúel Karl Ólason skrifar
Rússar segja dómstólinn ekki vera óháðan, eftir að hann sagði innlimun Krímskaga vera stríðsaðgerð.
Rússar segja dómstólinn ekki vera óháðan, eftir að hann sagði innlimun Krímskaga vera stríðsaðgerð. Vísir/GEtty
Ríkisstjórn Rússlands hefur ákveðið að slíta sig frá Rómarsamþykktinni um Alþjóðlega sakamáladómstólinn (ICC). Það var ákveðið í dag, en á mánudaginn sagði dómstóllinn að innlimun Rússa á Krímskaga árið 2014 hefði verið stríðsaðgerð gegn Úkraínu.

Rússar komu að stofnun dómstólsins árið 2002 og skrifuðu þeir undir sáttmálann árið 2000. Samkvæmt TASS fréttaveitunni, hefur Vladimir Putin, forseti, skipað utanríkisráðherra Rússlands að formlega tilkynna framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna ákvörðunina.

Niðurstaðan varðandi Krimskaga var birt í skýrslu ICC á mánudaginn (bls. 35).

Í tilkynningu á vef Utanríkisráðuneytis Rússlands (á rússnesku) segir að dómstóllinn sé ekki óháður og hafi ekki staðið undir væntingum. Því hafi þessi ákvörðun verið tekin.

Undanfarin misseri hafa nokkrar Afríkuþjóðir lýst yfir vilja sínum og ætlunum til að slíta sig frá ICC. Meðal þeirra eru Suður-Afríka og Burundi. Ríkisstjórnir þeirra ríkja hafa sakað dómstólinn um að einblína á Afríku.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×