Erlent

Skipulagði hryðuverkaárásirnar í París og Brussel

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Fjöldi fólks kom saman fyrir utan veitingastaðinn Le Crillon í París þann 15. nóvember, tveimur dögum eftir sjálfsvígsárásirnar þar í borg, til að minnast hinna látnu.
Fjöldi fólks kom saman fyrir utan veitingastaðinn Le Crillon í París þann 15. nóvember, tveimur dögum eftir sjálfsvígsárásirnar þar í borg, til að minnast hinna látnu. vísir/afp
Franska lögreglan hefur lýst eftir Oussama Atar, 32 ára gömlum manni sem grunaður er um að hafa skipulagt hryðjuverkaárásirnar bæði í París í nóvember á síðasta ári og í Brussel í mars síðastliðnum.

Fyrir var vitað að hann tengdist sjálfsvígsárásunum á flugvöll og jarðlestarstöð í Brussel en nú telur lögreglan sig hafa vitneskju um að hann hafi einnig átt hlut að árásunum í París.

Atar er belgískur ríkisborgari, ættaður frá Írak og frændi bræðranna Ibrahims og Khalids El Bakraoui sem tóku þátt í sjálfsvígsárásunum í Brussel.

Árið 2005 var hann handtekinn í Írak og var um hríð fangi í hinu alræmda Abu Ghraib-fangelsi þar í landi. Þar er hann talinn hafa komist í kynni við harðskeytta vígamenn, meðal annars Abu Bakr al Baghdadi, leiðtoga Daish-samtakanna, sem kalla sig Íslamskt ríki og hafa undanfarin misseri verið með stór svæði í Írak og Sýrlandi á sínu valdi.

Belgíska lögreglan hefur fullyrt að það hafi verið Atar sem fékk frændur sína tvo á band vígamanna.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu.


Tengdar fréttir

Tæpt ár frá hryðjuverkunum í París

Yfirmaður lækna- og bráðateymis sem starfaði á vettvangi hryðjuverkanna flutti erindi á alþjóðaráðstefnu Slysavarnafélagsins Landsbjargar




Fleiri fréttir

Sjá meira


×