Erlent

Bandaríkjaþing áfram undir stjórn Repúblikana

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Paul Ryan, forseti fulltrúardeildar Bandaríkjaþings.
Paul Ryan, forseti fulltrúardeildar Bandaríkjaþings. Vísir/Getty
Repúblikanar héldu yfirráðum sínum yfir Bandaríkjaþingi í kosningunum í Bandaríkjunum. Flokkurinn er áfram með meirihluta í báðum deildum þingsins auk þess sem að Donald Trump mun taka við embætti forseta í janúar á næsta ári.

Kosið var um 34 af 100 sætum öldungardeildarinnar. Búist var við að Demókratar myndu jafnvel ná meirihluta þar en allt kom fyrir ekki, þeim tókst einungis að vinna eitt sæti á kostnað Repúblikana og eru þeir nú með 47-51 sæta meirihluta.

Eftir á að birta endanlegar niðurstöðu í tveimur ríkjum, Lousiana og New Hampshire en búist er við að flokkarnir bæti við sig einum þingmanni hvor þegar uppi er staðið.

Reiknað var með að Repúblikanar myndu halda völdum sínum í fulltrúardeildinin og gekk það eftir. Misstu þeir þó níu sæti til Demókrata það sem af er en eftir á að birta endanlegar niðurstöður. Reiknað er með að þegar endanlegar niðurstöður liggi fyrir muni Repúblikanar vera með 45 sæta meirihluta, 240 gegn 195.

Ljóst er því að úrslit kosninganna munu auðvelda starf Donald Trump sem forseta til muna en hann mun væntanlega eiga auðveldara með að koma sínum málum í gegnum þingið án þess að eiga von á því að mæta mikilli andstöðu þingsins.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×