Enski boltinn

Leikmenn Englands koma Rooney til varnar eftir að baulað var á fyrirliðann

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Baulað var á Wayne Rooney.
Baulað var á Wayne Rooney. vísir/getty
Wayne Rooney, fyrirliði enska landsliðsins í fótbolta, er ekki vinsælasti leikmaðurinn hjá öllum stuðningsmönnum Englands þessa dagana en hluti þeirra baulaði á fyrirliðanna eftir 2-0 sigur Englands gegn Möltu á laugardaginn.

Það var vissulega ekki stór hluti 81.000 stuðningsmanna Englands á Wembley sem baulaði á Rooney sem er búinn að skora eitt mark fyrir United og landsliðið samtals í tólf leikjum á þessari leiktíð.

„Mér fannst Wayne vera frábær. Hann hefur alltaf spilað vel fyrir enska landsliðið,“ sagði Man. City-miðvörðurinn John Stones við fjölmiðla í gær en fleiri leikmenn Englands komu fyrirliðanum sínum til varnar.

Rooney hefur fengið sinn skerf af gagnrýni undanfarin misseri en nú vilja sumir halda því fram að hann sé einfaldlega fyrir ungum stjörnum enska liðsins á borð við Harry Kane, Daniel Sturridge og Dele Alli. Sérstaklega í ljósi þess að hann er búinn að byrja síðustu þrjá leiki Manchester United á varamannnabekknum.

Jordan Henderson, fyrirliði Liverpool, sagði við fjölmiðla að Rooney hefði verið alveg magnaður í leiknum og John Stones bætti við að Rooney væri fórnarlamb eigin velgengni. Rooney er markahæsti leikmaður Englands í sögunni með 53 mörk í 117 leikjum.

„Hann ber hjartað á erminni í hverjum einasta leik og gefur alltaf 110 prósent. Ég á eiginlega ekki orð yfir þessu bauli,“ sagði Stones.

„Hann er alltaf góður og alltaf í góðu formi. Bestu leikmenn liðsins fá alltaf að heyra það vegna viðmiðsins sem Rooney er búinn að setja fyrir sjálfan sig og aðra,“ sagði John Stones.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×