Erlent

NBC víkur Billy Bush frá störfum vegna Trump-samtals

Atli Ísleifsson skrifar
Billy Bush hefur verið einn þáttastjórnenda Today Show en stýrði þættinum Access Hollywood á þeim tíma sem myndbandið var tekið upp.
Billy Bush hefur verið einn þáttastjórnenda Today Show en stýrði þættinum Access Hollywood á þeim tíma sem myndbandið var tekið upp. Vísir/Getty
Bandaríska sjónvarpsstöðin NBC hefur vikið þáttastjórnandanum Billy Bush frá störfum í kjölfar birtingar myndbands frá 2005 þar sem sjá má Bush og Donald Trump láta klúr ummæli falla.

Bush hefur verið einn þáttastjórnenda Today Show en stýrði þættinum Access Hollywood á þeim tíma sem myndbandið var tekið upp.

Noah Oppenheim, framkvæmdastjóri Today á NBC, segir í minnisblaði til starfsmanna að Bush eigi sér engar málsbætur vegna þess orðfæris og hegðunar sem hann sýnir á myndbandinu.

Í frétt BBC kemur fram að Bush, sem er náfrændi George W. Bush, fyrrverandi Bandaríkjaforseta, segist skammast sín vegna hegðunar sinnar. Segist hann hafa verið ungur, óþroskaður og hagað sér eins og vitleysingur.

Trump hefur einnig beðist afsökunar á ummælum sínum þar sem heyrist til þeirra Trump og Bush ræða kvenfólk. Trump sagðist geta  „gert hvað sem er“ við konur þegar maður er stjarna, auk þess að stæra sig af tilraunum símum að áreita og kyssa konur. Bush segir á upptökunni að „Donald-inn hafi skorað“ og tjáir sig einnig um leggi konu.

Oppenheim segir í minnisblaðinu að mál Bush verði tekið til frekari skoðunar, en ekki liggur fyrir hvað hann verði lengi frá störfum.


Tengdar fréttir

Óvænt útspil Trump setur kappræðurnar í uppnám

Í aðdraganda annarra kappræðna bandarísku forsetaframbjóðendanna hélt Donald Trump óvæntan blaðamannafund með konum sem ásökuðu eiginmann Hillary Clinton, fyrrverandi forsetann Bill Clinton, um að hafa nauðgað sér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×