Lið Glódísar Perlu Viggósdóttur, Eskilstuna United, verður í pottinum þegar dregið verður í sextán liða úrslit Meistaradeildar kvenna í fótbolta.
Eskilstuna United vann 2-1 sigur á skoska liðinu Glasgow City í kvöld í seinni leik liðanna í 32 liða úrslitum Meistaradeildarinnar. Eskilstuna fór þar með áfram samanlagt 3-1.
Glódís Perla Viggósdóttir spilaði allan leikinn í vörn Eskilstuna og það var sæmilega mikið að gera hjá henni í þessum leik á móti fínu skosku liði.
Eskilstuna var í ágætum málum eftir 1-0 sigur í fyrri leiknum en það var mikilvægt fyrir liðið að skora eftir aðeins sjö mínútur í Skotlandi í kvöld.
Olivia Schough skoraði bæði mörk Eskilstuna United í leiknum í kvöld en hún kom liðinu tvisvar yfir, fyrst á 7. mínútu og svo á 58. mínútu. Sarah Crilly jafnaði metin á upphafsmínútu seinni hálfleiksins.
Tvær íslenskar landsliðskonur verða því með í 16 liða úrslitum Meistaradeildarinnar því Sara Björk Gunnarsdóttir og félagar hennar í þýska liðinu Wolfsburg fóru áfram í gær.
Glódís Perla og félagar áfram í Meistaradeildinni
Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
