Erlent

Réttað yfir Wilders í lok mánaðar

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Geert Wilders, formaður Frelsisflokksins.
Geert Wilders, formaður Frelsisflokksins. Nordicphotos/AFP
Formanni Frelsisflokks Hollands, Geert Wilders, hefur verið gert að mæta fyrir dómstóla þann 31. október næstkomandi þar sem réttað verður yfir honum fyrir meinta hatursorðræðu.

Wilders er sakaður um að hafa hvatt til kynþáttahaturs þegar hann spurði viðstadda á baráttufundi sínum hvort þeir vildu frekar fá fleiri eða færri Marokkómenn til Hollands.

Sjálfur segir Wilders ásakanirnar fáránlegar. Verið sé að ákæra hann fyrir að ljá milljónum Hollendinga rödd. „Dómstólar eru að reyna að þagga niður í pólitískri orðræðu,“ sagði Wilders í gær.

Wilders hefur á stjórnmálaferli sínum gagnrýnt íslamska trú og menningu harðlega. Hann hefur meðal annars kallað eftir því að Kóraninn, trúarrit múslima, verði bannaður sem og að öllum moskum í landinu verði lokað.

Flokkur hans mælist nú stærstur, nýtur 28 prósenta fylgis samkvæmt nýjustu könnun fyrirtækisins Peil. Frelsis- og lýðræðisflokkurinn, flokkur Marks Rutte forsætisráðherra, mælist með 27 prósenta fylgi.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu




Fleiri fréttir

Sjá meira


×